- Auglýsing -
- Sebastian Hinze tekur við þjálfun þýska handknattleiksliðsins Eisenach í sumar þegar Misha Kaufmann færir sig um set yfir til Stuttgart. Hinze hefur undanfarin þrjú ár þjálfað Rhein-Neckar Löwen. Fyrr í vetur var tilkynnt að Hinze héldi ekki áfram hjá Löwen að leiktíðinni lokinni. Liðið varð þýskur bikarmeistari undir hans stjórn 2023.
- Maik Machulla, sem vikið var úr starfi þjálfara Aalborg Håndbold eftir aðeins fjóra mánuði í upphafi vetrar, tekur við þjálfun Rhein-Neckar Löwen af Hinze. Sá síðarnefndi þjálfari Bergischer HC í áratug með aðdáunarverðum árangri.
- Norska landsliðskonan Silje Solberg-Østhassel meiddist snemma árs og hefur ekki jafnað sig fyllilega ennþá. Er það ástæða þess að hún hefur ekki skrifað undir samning við félag eftir að Vipers Kristiansand varð gjaldþrota og hætti keppni í upphafi ársins. Stalla Solberg í markinu hjá Vipers og norska landsliðinu, Katrine Lunde, samdi á dögunum til skamms tíma við Odense Håndbold.
- Solberg, sem er 34 ára, flutti heim til Noregs síðasta sumar og gekk til liðs við Vipers eftir að hafa m.a. verið markvörður Evrópumeistara Győri ETO KC í fjögur ár.
- Tomáš Hlavatý og Daniel Čurda hafa tekið við þjálfun tékkneska kvennalandsliðsins í handknattleik. Fyrstu leikir landsliðsins undir þeirra stjórn verður gegn Úkraínu í umspili HM í apríl. Hlavatý tekur við þýska meistaraliðinu HB Ludwigsburg í sumar og stýrir því samhliða tékkneska landsliðinu.
- Norðmaðurinn Bent Dahl sem þjálfaði tékkneska landsliðið frá 2022 hætti eftir EM í lok síðasta ár og var í kjölfarið ráðinn þjálfari serbneska kvennalandsliðsins.
- Auglýsing -