- Auglýsing -
- Norski þjálfarinn Ole Gustav Gjekstad er einn þeirra sem talinn er hvað líklegastur til að taka við þjálfun norska landsliðsins af Þóri Hergeirssyni. Eftir að Þórir tilkynnti í fyrradag að hann ætlaði sér að láta af störfum um áramótin þegar samningur hans við norska handknattleikssambandið rennur sitt skeið, hófust vitanlega vangaveltur um hver verður hans eftirmaður.
- Gjekstad þykir hafa margt til brunns að bera. Hann hefur náð afbragðsárangri t.d. með Vipers Kristiansand en undir hans stjórn vann liðið Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð 2021, 2022 og 2023 en hann þjálfaði liðið í fimm ár. Þar áður var Gjekstad þjálfari Larvik með afbragðs árangri. Gjekstad er 56 ára gamall og tók við þjálfun Odense Håndbold í Danmörku sumarið 2023.
- Einnig hefur Tonje Larsen verið nefnd til sögunnar en hún hefur verið hægri hönd Þóris sem aðstoðarþjálfari landsliðsins frá 2020 auk þess að eiga afar farsælan feril sem landsliðskona frá 1992 til 2010.
- Fleiri hafa verið í umræðunni t.d. Mia Högdahl sem þekkir afar vel til norska landsliðsins en hún starfaði lengi með Þóri. Fjórði þjálfarinn sem er sagður koma til greina er Arne Senstad núverandi þjálfari kvennaliðs Larvik og fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðs Póllands.
Sjá einnig: Þórir lætur af störfum sem landsliðsþjálfari Noregs
- Auglýsing -