- Auglýsing -
- Rússinn Konstantin Igropulo verður aðstoðarþjálfari Evrópumeistara Barcelona á næsta tímabili samkvæmt fregnum Esports Rac1 á Spáni. Igropulo lék með Barcelona fyrir allmörgum árum. Hann var þjálfari Dinamo Viktor í Rússlandi á síðasta tímabili. Carlos Ortega þjálfari Barcelona og Igropulo þekkjast vel síðan Ortega þjálfaði hjá KIF Kolding í Danmörku fyrir nokkrum árum. Tomas Svensson sem er aðstoðarþjálfari Barcelona núna hyggst snúa sér að markvarðaþjálfun hjá Evrópumeisturunum.
- Portúgalski landsliðsmaðurinn Diogo Silva hefur samið við PAUC í Frakklandi og verður í samkeppni við Kristján Örn Kristjánsson, Donna, um hægri skyttustöðuna hjá liðinu á næstu leiktíð. Silva kemur í stað Micke Brasseleur sem samið hefur við Constanta í Rúmeníu. Silva lék með Porto á síðasta keppnistímabili.
- Þriðja rússneska handknattleikskonan á nokkrum dögum hefur kosið að leika utan heimalandsins á næsta keppnistímabili. Valeriia Maslova hefur samið við franska meistaraliðið Metz til eins árs með möguleika á að bæta ári við ef aðstæður leyfa. Maslova hefur leikið með CSKA Moskvu. Hinar tvær rússnesku konurnar sem hafa sótt út fyrir heimalandið eru landsliðskonurnar Daria Dmitrieva og Anna Vyakhireva. Sú fyrrnefnda ætlar að leika með Krim Ljubljana en Vyakhireva hefur samið við Vipers Kristiansand.
- Slóveníumeistararnir í handknattleik karla RK Celje hafa krækt í Túnisbúann Yassin Belkaeid frá Sporting Lissabon. Celje verður með í Meistaradeild karla á næstu leiktíð eftir eins tímabils fjarveru. Sporting verður á meðal þátttökuliða í undankeppni Evrópudeildarinnar.
- Spænski handknattleiksmaðurinn Daniel Sarmiento hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Sarmiento er 38 ára gamall og lék á sínum tíma 250 landsleiki fyrir Spán og var í sjö leiktímabil leikmaður Barcelona. Síðustu sex ár hefur Sarmiento leikið með Saint-Raphaël í Frakklandi.
- Auglýsing -