- Auglýsing -
- Tomislav Jagurinoski fyrrverandi leikmaður Þórs á Akureyri hefur verið leystur undan samningi hjá þýska 2. deildarliðinu Dessau-Roßlauer HV. Aðeins eru þrír mánuðir síðan Jagurinoski gekk til liðs við félagið. Hann fékk þungt högg á bakið í æfingaleik í ágúst og hefur ekki jafnað sig. Varð þar af leiðandi að samkomulagi að Jagurinoski fari frá félaginu.
- Jagurinoski lék með Þór í Grill 66-deildinni leiktíðina 2021/2022 en fór eftir tímabilið heim til Norður Makedóníu. Hann var með Vardar Skopje á síðasta vetri og kom m.a. með félaginu hingað til lands í leik við Val í Evrópudeildinni.
- Markvörðurinn Nikola Portner er í 19 manna leikmannahóp landsliðs Sviss sem kemur saman til æfinga í lok þessa mánaðar þótt hann megi hvorki æfa né leika með landsliðinu.
- Portner er í keppnisbanni til 10. desember eftir að hafa gert sátt í máli sem höfðað var gegn honum af Alþjóða íþróttadómstólnum í Sviss eftir að hann féll á lyfjaprófi vorið 2024. Hann má vera í slagtogi með landsliðinu. Portner hefur lengi verið fyrirliði landsliðs Sviss og verður væntanlega klár í slaginn á Evrópumótinu í janúar.