- Auglýsing -
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk og átti fjórar stoðsendingar þegar lið hennar Kristianstad vann Ystads IF, 36:27, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær á heimavelli. Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark fyrir Kristianstad sem færðist upp í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir 15 leiki. Aranäs er í 9. sæti með 12 stig einnig og á leik til góða.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði níu skot, 21%, þegar lið hennar Aarhus Håndbold tapaði fyrir meisturum Esbjerg, 35:28, í dönsku úrvalsdeildinni í fyrrakvöld. Esbjerg var þremur mörkum yfir, 14:11, að loknum fyrri hálfleik. Elín Jóna var í marki Aarhus Håndbold allan leikinn. Aarhus Håndbold situr í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar með sjö stig í 15 leikjum. Ellefu umferðir eru eftir.
- Elías Már Halldórsson þjálfari Fredrikstad sá lið sitt tapa með níu marka mun fyrir Storhamar, 35:26, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í fyrrakvöld. Axel Stefánsson er kominn inn í þjálfarateymi Storhamar á nýjan leik. Storhamar er í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Fredrikstad er í 11. sæti með sjö stig í 13 leikjum.
- Þýskir fjölmiðlar segja frá því að Norðmaðurinn Kent Robin Tønnesen gangi að öllum líkindum til liðs við Flensburg í sumar eftir veru hjá PSG. Forráðamenn Flensburg hafa verið að leita að eftirmanni Hollendingsins Kay Smits sem kveður félagið í sumar. Tønnesen, sem er 33 ára gamall þekkir vel til í þýska handknattleiknum en frá 2013 til 2017 lék hann með Wetzlar og síðar Füchse Berlin.
- Flensburg hefur þegar samið við Luca Witzke leikmann SC DHfK Leipzig og Domen Novak hjá Wetzlar fyrir næsta keppnistímabil auk þess sem Ales Pajovic tekur við þjálfun liðsins þegar í stað.
- Auglýsing -