- Juri Knorr og Renars Uscins leika ekki með þýska landsliðinu í tveimur leikjum við Austurríki í undankeppni EM í handknattleik í vikunni. Einnig leikur vafi á þátttöku Justus Fischer í fyrri viðureigninni sem verður á fimmtudaginn í Vínarborg. Síðari leikurinn verður í Hannover á laugardag.
- Þýski markvörðurinn Till Klimpke hefur ákveðið að kveðja Wetzlar eftir nokkurra ára samfylgd og ganga til liðs við danska liðið HØJ Elite í sumar. Sjálandsliðið ætlar sér stóra hluti á næstu árum en stefnan er að leika í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Meðal leikmanna liðsins er Hans Lindberg markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar frá upphafi. Í janúar samdi Svíinn Hampus Wanne við HØJ Elite. Wanne hefur undanfarin ár leikið með Barcelona.
- Danski handknattleiksdómarinn Jesper Madsen sem fékk öðru sinni aðsvif á skömmum tíma í miðjum kappleik síðasta laugardag ætlar að taka sér frí frá dómgæslu um óákveðinn tíma. Hann segist ekki finna fyrir lasleika auk þess sem læknar standa ráðþrota frammi fyrir spurningunni um hvað veldur svimaköstum sem Madsen fær í leikjum. Áfram verður haldið rannsóknum en á meðan hefur Madsen sett flautuna og spjöldin ofan í skúffu.
- Hinn gamalreyndi danski handknattleiksmaður og þjálfari í seinni tíð, Klavs Bruun Jørgensen, var í gær vikið úr starfi þjálfara Team Sydhavsøerne. Liðið er í fallhættu í næst efstu deild danska handknattleiksins. Jørgensen hefur þjálfað liðið í tæp tvö ár. Hann hefur víða þjálfað á síðustu árum en ekki náð verulegum árangri. M.a. var Jørgensen um skeið þjálfari danska kvennalandsliðsins.
- Þýska meistaraliðið SC Magdeburg leikur ekki á heimavelli sínum gegn Dinamo Búkarest í átta liða úrslitum Meistaradeildar 2. apríl. Keppnishöllin í Magdeburg, GETEC Arena, er bókuð undir annan viðburð alla vikuna og verður ekki hægt að koma handboltaleik fyrir vegna þess. Viðureignin verður þess í stað í Anhalt Arena í Dessau. Hún rúmar aðeins 2.700 áhorfendur en heimavöllur Magdeburg um 6.500 áhorfendur. Félagið verður þar af leiðandi af talsverðum tekjum.