- Auglýsing -
- Nicolej Krickau sem sagt var upp starfi þjálfara Flensburg á laugardaginn verður væntanlega ekki lengi án atvinnu. Krickau segist hafa fengið fjölda tilboða um þjálfun. Töluverðar líkur eru taldar á að Anders Eggert aðstoðarþjálfari Flensburg verði ráðinn aðalþjálfari liðsins. Eggert kom inn í þjálfarateymi liðsins í sumar en hann þekkir vel til hjá Flensburg eftir að hafa leikið með liði félagsins frá 2006 til 2017.
- Hinn þrautreyndi þjálfari spænska kvennalandsliðsins, Ambros Martín, hefur verið ráðinn þjálfari slóvenska meistaraliðsins Krim Ljubljana. Hann tekur við af öðrum þekktum þjálfara, Dragan Adzic sem sagði starfi sínu lausu rétt áður en EM kvenna hófst í síðasta mánuði.
- Krim er í þriðja sæti A-riðils Meistaradeildar kvenna eftir átta leiki. Liðið hefur unnið fjóra leiki en tapað fjórum.
- Martín er þrautreyndur þjálfari og m.a. þjálfað Györi í Ungverjalandi og rússnesk félagslið auk þess að vera landsliðsþjálfari Ungverjalands, Rússlands og nú síðast með spænska landsliðið undanfarin tvö ár.
- Sænski handknattleiksmaðurinn Oskar Sunnefeldt hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við þýska liðið Göppingen. Sunnefeldt hélt upp á samninginn með því að skora sjö mörk í langþráðum sigri Göppingen á Wetzlar, 27:24, á sunnudaginn.
- Hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg var í leikmannahópi Wetzlar í leiknum við Göppingen á sunnudaginn en kom ekkert við sögu. Viktor gekk til liðs við Wetzlar rétt fyrir síðustu helgi.
- Steffen Stegavik eiginmaður norsku handknattleikskonunnar Camillu Herrem segir í samtali við VG í Noregi að hann hafi reynt að telja konu sína ofan af því að hætta með norska landsliðinu eftir Evrópumótið sem lauk á sunnudaginn. Hann segist ekki hafa haft erindi sem erfiði. Herrem hafi ákveðið í sumar að láta gott heita eftir EM í desember og sitji við sinn keip.
- Auglýsing -