- Auglýsing -
- Lilja Ágústsdóttir rauk upp listann yfir markahæstu leikmenn heimsmeistaramóts 20 ára landsliða í gær þegar hún skoraði 13 mörk í sigurleiknum á Svartfellingum. Lilja situr í 14. sæti með 22 mörk alls í 29 skotum og er markahæst leikmanna íslenska liðsins. Hún hefur skorað sex mörk úr vítaköstum og er með fullkomna nýtingu.
- Af íslensku stúlkunum er Elín Klara Þorkelsdóttir næst á eftir með 17 mörk. Katrín Anna Ásmundsdóttir er þriðja markahæst af leikmönnum íslenska liðsins með 14 mörk. Inga Dís Jóhannsdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir eru þar á eftir með 12 mörk hvor.
- Svartfellingurinn Jelena Vukcevic er markahæst á HM með 43 mörk í 4 leikjum. Hún skoraði 13 mörk gegn Íslandi í gær af 27 mörkum Svartfellinga í leiknum sem íslenska liðið vann, 35:27.
- Íslenska landsliðið leikur við portúgalska landsliðið í dag í síðari viðureigninni í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts 20 ára landsliða kvenna. Flautað verður til leiks klukkan 16.
- Elín Klara Þorkelsdóttir hefur gefið flestar stoðsendingar af leikmönnum íslenska landsliðsins. Hún á 10 stoðsendingar í þremur leikjum en Hafnfirðingurinn kom ekkert við sögu í viðureigninni við Bandaríkin á laugardaginn. Embla Steindórsdóttir er næst á eftir Elínu Klöru af leikmönnum íslenska landsliðsins með níu stoðsendingar. Nina Bucher leikmaður Sviss hefur verið atkvæðamest við að fóðra samherja sína með stoðsendingum. Hún hefur eftirlátið þeim 20 sendingar sem hafa skilað mörkum, fimm að jafnaði í leik.
- Markverðir íslenska landsliðsins eru báðir á meðal 20 efstu þegar litið er til hlutafallsmarkvörslu. Anna Karónlína Ingadóttir situr í öðru sæti með 48,6%, 18 skot varin af 37.
- Ethel Gyða Bjarnasen átti stórleik gegn Svartfellingum í gær, varði 19 skot af 45, 42%. Hún hefur þar með varið 39 skot af 103 sem hún hefur fengið á mark sitt, 37,8%. Alls eru 72 markverðir skráðir til leiks á HM með liðunum 32 sem taka þátt.
- Auglýsing -