- Auglýsing -
- Þýska handknattleiksliðið THW Kiel staðfesti í gær að Slóveninn Domen Makuc gangi til liðs við félagið næsta sumar. Makuc hefur verið leikmaður Barcelona frá 2020. Samningur Makuc við THW Kiel er til fjögurra ára frá árinu 2026.
- Þýski dagblaðið Sport Bild heldur því fram að forráðamenn Evrópumeistara SC Magdeburg rói að því öllum árum að fá króatíska markvörðinn Matej Mandic sem fyrst til félagsins frá RK Zagreb, ári fyrr en til stóð. Mandic á að leysa af Nikola Portner markvörð sem verður í leikbanni fram til 10. desember vegna lyfjanotkunar.
- Mandic á að koma til Magdeburg næsta sumar í stað Spánverjans Sergey Hernandez sem gengur til liðs við Barcelona. Vegna máls Portner er reynt að flýta fyrir komu Króatans. Málið mun stranda í bili á því hvort RK Zagreb tekst að verða sér út um annan markvörð á næstu dögum til að leysa Mandic af hólmi.
- Forráðamenn Magdeburg hafa skoðað fleiri kosti til þess að leysa vandamálið sem skapast vegna fjarveru Portners. Þeir kostir eru ekki taldir eins fýsilegir.
- Sænska landsliðskonan Jenny Carlson hefur samið við norska úrvalsdeildarliðið Molde. Hún var síðast hjá HB Ludwigsburg sem hefur engan fjárhagslega burði til að halda úti burðugu liði á næstu leiktíð og sagði því upp öllum samningum við leikmenn sína á dögunum.
- Þýska handknattleiksliðið MT Melsungen sem Arnar Freyr Arnarsson og Reynir Þór Stefánsson leika með hefur samið við 19 ára gamla pilt frá Sviss, Luca Sigrist. Hann kemur til félagsins næsta sumar frá HC Kriens-Luzern.
- Auglýsing -