- Auglýsing -
- Úlfar Páll Monsi Þórðarson og liðsfélagar í RK ALkaloid töpuðu í gær öðrum leik sínum í röð í úrvalsdeildinni í Norður Makedóníu. Að þessu sinni biðu þeir lægri hlut í viðureign við HC Ohrid, 28:24. Monsi skoraði tvö mörk í þremur skotum í leiknum.
- RK Alkaloid situr í þriðja sæti eftir leikinn með 18 stig að 12 leikjum loknum. HC Ohrid færðist upp í annað sæti með 19 stig. Vardar er efst með 20 stig en hefur lokið 10 viðureignum. Eurofarm Pelister, sem lék í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld, hefur 17 stig eftir 10 leiki.
- Jana Mittún, leikstjórnandi færeyska kvennalandsliðsins, hefur skrifað undir nýjan samning við danska úrvalsdeildarliðið Viborg. Samningurinn gildir til ársins 2028. Jana, sem er 21 árs gömul, er systir Óla Mittún landsliðsmanns Færeyinga og leikmanns GOG.
- Konstantin Igropulo, aðstoðarþjálfari Barcelona, verður við stjórnvölin hjá liðinu í kvöld þegar Barcelona tekur á móti Wisla Plock í 7. umferð Meistaradeildar Evrópu. Eins og handbolti.is sagði frá á dögunum var Carlos Ortega þjálfari Barcelona úrskurðaður í eins leiks bann eftir að það kastaðist í kekki á milli hans og þjálfara Wisla Plock, Xavier Sabate, í fyrri viðureign liðanna í síðasta mánuði. Ortega áfrýjaði úrskurði aganefndar EHF en hafði ekki erindi sem erfiði.
- Ungverski landsliðsmaðurinn Bence Imre yfirgefur THW Kiel í sumar og gengur til liðs við One Veszprém. Imre, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við THW Kiel sumarið 2024 frá Ferencváros í Búdapest.
- Þýski handknattleiksmaðurinn Christian Dissinger hefur samið við ungverska liðið Györ. Dissinger, sem var í sigurliði Þýskalands á EM 2016, hefur farið víða síðustu ár og m.a. leikið með Tatabanya KC og PLER frá Búdapest. Um tíma í haust leit úr fyrir að Dissinger gengi til liðs við Ludwigshafen í 2. deild en hann æfði með liðinu um skeið. Dissinger hefur verið samningslaus frá því í sumar.
- Auglýsing -





