- Auglýsing -
- Markvörðurinn Martin Nagy, sem varð Íslandsmeistari með Val vorið 2021, hefur snúið heim til Ungverjalands eftir tveggja ára dvöl hjá Gummersbach. Nagy verður einn markvarða Pick Szeged á næstu leiktíð. Samningur hans við silfurlið ungversku úrvalsdeildarinnar er til eins árs með möguleika á eins árs framhaldi. Nagy meiddist í upphafi síðasta tímabils og lék ekkert með Gummersbach í þýsku 1. deildinni.
- Spænski landsliðsmaðurinn Jan Gurri hefur samið við Sporting Lissabon eftir að hafa leikið um árabil með BM Granollers. Spænska liðið lék í vor til úrslita í Evrópudeildinni í handknattleik. Forráðamenn Sporting eru stórhuga og hafa styrkt lið sitt verulega upp á síðkastið. Ljóst virðist að gera eigi hressilega atlögu að Porto sem hefur nær því einokað meistaratitilinn í Portúgal síðustu árin í karlaflokki.
- Norski línumaðurinn og landsliðsmaðurinn Kevin Gulliksen leikur ekki með TTH Holstebro í Danmörku fyrstu vikurnar á nýju keppnistímabili. Á dögunum kom í ljós að ökklameiðsli sem hann hlaut undir lok síðasta tímabils væru svo slæm að aðgerð var ekki umflúin. Gekkst hann undir aðgerð fyrir nokkrum dögum. Gulliksen er einn nýrra leikmanna sem Arnór Atlason nýr þjálfari Holstebro hefur krækt í.
- Litáíska stórkyttan Aidenas Malasinskas hefur samið við rúmenska handknattleiksliðið HC Buzau. Malasinskas lék síðasta árið með MT Melsungen í Þýskalandi.
- Kúba vann Dóminíkanska Lýðveldið í hnífjöfnum úrslitaleik í handknattleikskeppni Mið-Ameríku og Karabíahafseyja í handknattleik karla í fyrrakvöld, 30:29. Mexíkó hreppti bronsverðlaunin með sigri á Púertó Ríkó, 32:29. Landslið Venesúela, Kosta Ríka, El Salvador og Nigaragúa tóku einnig þátt í keppninni.
- Auglýsing -