- Auglýsing -
- Tyrkneska liðið Nilüfer BSK, sem lagði FH um síðustu helgi í 64-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik, dróst gegn HB Red Boys Differdange í 32-liða úrslitum keppninnar. Dregið var í gær. HB Red Boys Differdange mætti ÍBV í sömu keppni fyrir tveimur árum og vann ÍBV öruggan sigur samanlagt í tveimur leikjum.
- Þýski landsliðsmaðurinn Franz Semper og liðsfélagi Blæs Hinrikssonar er sagður hafa framlengt samning sinn við Leipzig fram til ársins 2027. SportBild segir þó vera uppsagnarákvæði í samningnum þess efnis að ef liðið fellur úr efstu deild verði Semper frjálst að róa á önnur mið. Leipzig rekur lestina í deildinni eins og sakir standa.
- Þýski handknattleiksþjálfarinn Frank Carstens hefur ákveðið að söðla um og taka við þjálfun bandaríska handknattleiksliðsins Los Angeles Team Handball Club. Hann segist renna blint í sjóinn en leggur af stað með opnum huga.
- Carstens hefur síðustu 19 ár þjálfað lið í efstu og næst efstu deild þýska handknattleiks. Síðast var hann þjálfari HSG Wetzlar en var sagt upp í vor. M.a. var Carstens aðstoðarþjálfari þýska landsliðsins frá 2011 til 2013.
- Talant Dujshebaev þjálfari pólska liðsins Industria Kielce viðurkennir að lið hans sé í öldudal um þessar mundir. Árangurinn í Meistaradeild Evrópu hefur verið undir væntingum auk þess sem liðið tapaði með fimm marka mun, 32:27, fyrir Wisla Plock í uppgjöri tveggja sterkustu liða pólsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Það tap svíður Dujshebaev og hans mönnum mjög sárt.
- Spænski markvörðurinn Gonzalo Perez de Vargas vonast til þess að leika í fyrsta sinn með þýska liðinu THW Kiel áður en árið er úti. Hann sleit krossband í leik með Barcelona fljótlega eftir heimsmeistaramótið snemma á þessu ári. Mattias Andersson markvarðaþjálfari THW Kiel segir Perez de Vargas vera á afar góðri leið í endurhæfingu en ekki verði rasað um ráð fram þegar kemur að því að tefla markverðinum fram í kappleik.
- Auglýsing -