- Auglýsing -
- Miklar bollaleggingar hafa verið undanfarnar vikur um hugsanlegt brotthvarf Bertram Obling markvarðar Gummersbach frá félaginu næsta sumar. Nú er óhætt að leggja allar bollaleggingar varðandi Obling og framtíð hans til hliðar. Obling hefur skrifað undir nýjan samning við félagið til ársins 2028. Hann hefur átt mjög góða leiktíð í vetur undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar þjálfara liðsins.
- Hin öfluga franska handknattleikskona Grace Zaadi hefur orðið að draga sig út ur franska landsliðinu sem freistar þess að verja heimsmeistaratitilinn í næstu viku. Zaadi tognaði á lærvöðva og verður ekki með á HM.
- Ljóst er að Sebastien Gardillou landsliðsþjálfari Frakka verður með töluvert breytt lið á mótinu en hann tók við þjálfun franska landsliðsins að loknum Ólympíuleikunum á síðasta ári. Auk Zaadi sem er meidd eru Chloé Valentini, Estelle Nze-Minko, Laura Flippe og Pauline Coatanea óléttar. Til viðbótar þá er Laura Glauser með brjósklos og ekki að keppa um þessar mundir.
- Bojana Popovic, aðstoðarþjálfari danska kvennalandsliðsins, ein fremsta handknattleikskona sinnar kynslóðar, gæti verið á leið á ný í félagsliðaþjálfun. Hún staðfestir í samtali við danska fjölmiðla að hafa m.a. verið í sambandi við CSM Búkarest sem er í þjálfaraleit. Popovic hefur ekki þjálfað félagslið síðan samningi hennar við Buducnost var sagt upp í september. Popovoic var þjálfari Buducnost um árabil auk þess að vera landsliðsþjálfari Svartfjallalands.
- Þegar Helle Thomsen tók við danska landsliðinu um mitt árið fékk hún Popovic með sér til samstarfs.
- Soukeina Sagna, helsta burðarás í landsliði Senegal, ætlar ekki að leika með landsliðinu á HM kvenna í handknattleik. Hún yfirgaf æfingabúðir landsliðsins í skyndi um helgina. Engar haldbærar skýringar hafa verið gefnar en svo virðist sem slegið hafi í brýnu á milli hennar og þjálfara landsliðsins. Sagna var aðsópsmesti leikmaður landsliðs Senegal á HM fyrir tveimur árum og þekkir vel evrópskan handknattleik eftir margra ára dvöl í Frakklandi.
- Besta handknattleikskona heims, Henny Reistad, lék annan hálfleikinn fyrir norska landsliðið í síðasta leiknum gegn Serbum á Posten Cup-mótinu í Noregi á sunnudaginn. Hún virðist vera búin að jafna sig af eymslum í hásin. Þetta eru góðar fréttir fyrir norska landsliðið.
- Hins vegar er ekki eins jákvætt að Maren Aardahl fékk þungt högg á andlitið í fyrrgreindri viðureign við Serba og fékk fossandi blóðnasir. Flest bendir þó til þess að hún hafi sloppið við nefbrot.
- Ole Gustav Gjekstad, nýr landsliðsþjálfari Noregs, var glaður í bragði eftir þrjá örugga sigra á Posten Cup um helgina. Hann sagðist hafa færri áhyggjur núna vegna liðsins en hann hafði fyrir þremur mánuðum. Gjekstad stýrir norska landsliðinu í fyrsta sinn á stórmóti. Hann tók við þjálfun norska landsliðsins af Þóri Hergeirssyni um síðustu áramót.
- Norska landsliðið varð Evrópumeistari fyrir ári og hafnaði í öðru sæti á heimsmeistaramótinu fyrir tveimur árum.
- Auglýsing -


