- Auglýsing -
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk, þar af tvö úr vítaköstum, í 10 marka sigri Kadetten Schaffhausen, 30:20, á heimavelli gegn GC Amicitia Zürich í A-deildinni í Sviss í gær. Kadetten er efst í deildinni með 22 stig að loknum 12 leikjum.
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar lið hennar, Skara HF, vann Kristianstad HK, 29:24. Leikurinn fór fram í Kristianstad. Skara HF færðist upp í 7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum. Liðið hefur fimm stig eftir sjö leiki.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði sex mörk fyrir Kristianstad og átti tvær stoðsendingar gegn sínu fyrra liði. Berta Rut Harðarsdóttir skoraði ekki mark. Kristianstad HK vermir nú áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig að loknum sex leikjum.
- Tryggvi Þórisson og liðsmenn IK Sävehof gerðu jafntefli við Önnereds, 27:27, á heimavelli í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. Tryggvi skoraði ekki mark í leiknum. Síðari viðureignin fer fram í Gautaborg 16. nóvember.
- Hvorki gengur né rekur hjá danska úrvalsdeildarliðinu Ribe–Esbjerg. Liðið steinlá í gærkvöld í heimsókn til efsta liðs deildarinnar, GOG, 37:21. Elvar Ásgeirsson skoraði ekki mark fyrir Ribe-Esbjerg en átti tvær stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson varði eitt skot í markinu og náði sér ekki á strik fremur en kollegi hans Niklas Kraft.
- Ribe-Esbjerg komst í undanúrslit um danska meistaratitilinn í vor. Nú er liðið hinsvegar næst neðst með þrjú stig eftir 10 leiki. Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Einnig gengur illa hjá franska 1. deildar liðinu US Ivry en það rekur lestina í deildinni með eitt stig eftir níu umferðir. Ivry tapaði á heimavelli í gærkvöld fyrir Chambéry, 30:19. Grétar Ari Guðjónsson var í marki Ivry í um 15 mínútur í leiknum og varði 3 skot, 33%.
- Auglýsing -