- Auglýsing -
- Ólafur Andrés Guðmundsson og samherjar hans í GC Amicitia Zürich eru úr leik í úrslitakeppni svissnesku A-deildarinnar í handknattleik. GC Amicitia Zürich tapaði í gær með eins marks mun fyrir BSV Bern, 27:26, þegar liðin mættust í fjórða sinn í Bern. GC Amicitia Zürich tapaði þar með einvíginu, 3:1. BSV Bern tekur þar með sæti í undanúrslitum ásamt Kadetten Schaffhausen, HC Kriens og Pfadi Winterthur.
- Ólafur Andrés skoraði eitt mark fyrir GC Amicitia Zürich í leiknum í gær. Liðið vann einn útileik gegn Bern en tapaði m.a. tvisvar á heimavelli.
- Kvennalið GC Amicitia Zürich tapaði einnig í gær og það á heimavelli þegar lið Yellow Winterthur kom í heimsókn. Lokatölur 26:25, fyrir Winterthur eftir að GC Amicitia Zürich var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark fyrir GC Amicitia Zürich og Sunna Guðrún Pétursdóttir markvörður varði 5 skot, 27%, þann tíma sem hún stóð í marki liðsins. Deildarkeppninni er að ljúka. GC Amicitia Zürich situr í fimmta sæti af sex liðum í keppni liðanna í efri hluta A-deildarinnar.
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði fjögur skot þann stutta tíma sem hann stóð í marki Nantes í gær í fjögurra marka sigurleik á Saint Raphaël, 33:29. Nantes er í þriðja sæti deildarinnar með 41 stig eftir 24 leiki. Liðið er aðeins stigi á eftir Montpellier og PSG þegar sex umferðir eru eftir. Það stefnir í æsilegt kapphlaup um franska meistaratitilinn sem síðustu ár hefur verið einokaður af PSG.
- Örn Vésteinsson Östenberg var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir TuS N-Lübbecke í jafnteflisleik, 32:32, við Wölfe Würzburg í þýsku 2. deildinni í gær. TuS N-Lübbecke er í öðru sæti deildarinanr með 44 stig, er fimm stigum á eftir Balingen sem er efst. Eisenach er í þriðja sæti með 43 stig og Dessauer er þar á eftir með 42 stig. Wölfe Würzburg rekur lestina í deildinni og því komu þessi úrslit nokkuð á óvart.
- Auglýsing -