- Auglýsing -
- Ólafur Andrés Guðmundsson gat ekki leikið með samherjum sínum í Montpellier þegar liðið vann þýsku meistarana í THW Kiel, 37:30, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í gær. Leikið var í Frakklandi. Ólafur Andrés er lítillega tognaður í læri. Montpellier er í fimmta sæti A-riðils með þrjú stig eftir þrjá leiki.
- Ljubomir Obradovic fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðs Serbíu hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Grænhöfðaeyja, eða bláháfanna eins og landsliðið er kallað í heimalandinu. Obradovic tekur við af José Tomás sem bjó landslið Grænhöfðaeyja undir HM sem fram fór í Egyptalandi í janúar en það var í fyrsta sinn sem lið bláháfanna tryggði sér þátttökurétt á HM.
- Þátttaka Grænhöfðeyinga á HM endaði í handskolum eftir að kórónuveiran knúði dyra á herbúðum þeirra í Portúgal skömmu áður en haldið var til Egyptalands. Heltust nokkrir leikmenn úr lestinni auk þjálfarans áður en lagt var af stað. Þeir sem eftir voru komust til Kaíró og náðu einum leik áður en veikinda varð vart hjá nokkrum. Þegar aðeins níu leikmenn voru eftir ósmitaðir var þátttöku Grænhöfðeyinga á HM lokið eftir fyrsta leikinn.
- Fyrsta verkefni Obradovic með landslið Grænhöfðaeyja verður að taka þátt í Afríkumeistaramótinu sem fram fer í Marokkó í janúar þar sem allt verður lagt í sölurnar til þess að tryggja sér farseðilinn á HM 2023 sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi.
- Norski markvörðurinn Emily Sando hefur yfirgefið þýska liðið Bietigheim. Hún hefur ekkert leikið með liði félagsins síðan í mars vegna hjartveiki sem henni hefur ekki tekist að fá bót á. Sando óskað eftir á dögunum að verða leyst undan samningi og hafa foráðamenn þýska liðsins orðið við þeirri ósk.
- Forráðamenn norska handknattleiksliðsins Follo HK glíma við óvenjulegan vanda sem felst í að höggormar laðast mjög að keppnis- og æfingahúsi liðsins sem er í Langhus, ekki langt frá Ósló. Forráðamaður félagsins viðurkennir að þótt að ánægjulegt sé að líf hafi færst í íþróttahallir landsins á nýjan leik séu heimsóknir höggorma og snáka allt annað en gleðilegar.
- Auglýsing -