- Auglýsing -
- Tveir Íslendingar verða eftirlitsmenn á leikjum Evrópudeildar karla í handknattleik í Danmörku í kvöld. Ólafur Örn Haraldsson verður við störf í Middelfart Sparekasse Arena á Fjóni þar sem Fredericia HK mætir Tatran Presov í G-riðli. Danska liðið vann óvæntan sigur í fyrri viðureigninni, 34:27. Tatran Presov þarf nauðsynlega á sigri í kvöld til þess að vera af alvöru með í keppni um sæti í 16-liða úrslitum.
- Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður í Djurslands Bank Arena í Árósum þegar Skanderborg-Aarhus leikur gegn CS Minaur Baia Mare frá Rúmeníu í C-riðli. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er leikmaður Skanderborg Aarhus sem vann með 18 marka mun í fyrri leiknum fyrir viku, 45:27. Setti danska liðið félagsmet í markaskorun í leiknum. Liðið er einnig efst og taplaust í riðlinum eftir þrjár umferðir.
- Íslandsmeistarar Fram taka á móti HC Kriens-Luzern frá Sviss í 4. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.45 í Lambhagahöllinni. Framarar eiga harma að hefna eftir 15 marka tap í fyrri viðureigninni í Sviss fyrir viku, 35:20.
- Áfram ríkir óvissa um það hvort öflugasti markvörður Dana, Althea Reinhardt, geti tekið þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst í Þýskalandi í næstu viku. Reinhardt meiddist á hné í september. Eftir tveggja mánaða endurhæfingu hóf hún að leika með Odense Håndbold á nýjan leik fyrir rúmri viku en því miður meiddist hún á nýjan leik.
- Danski handknattleiksmaðurinn Mads Hoxer hefur framlengt samning sinn við meistaraliðið Aalborg Håndbold fram til ársins 2030. Hoxer kom til félagsins fyrir þremur árum frá Mors–Thy.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -




