- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Orri, Harpa, Hannes, Finnur, Ingibjørg, Goluža, Rasmussen

Orri Freyr Þorkelsson leikmaður Sporting Lissabon. Mynd/Sporting
- Auglýsing -
  • Orri Freyr Þorkelsson fór á kostum með Sporting í stórsigri liðsins á Vitória, 41:26, í þriðju umferð portúgölsku efstu deildarinnar í handknattleik. Hafnfirðingurinn og Haukamaðurinn skoraði 10 mörk í 11 skotum. Tvö markanna skoraði hann úr vítaköstum. Næsti leikur Sporting verður á Madeira eftir viku. Sporting er efst með níu stig að loknum þremur leikjum. Porto getur jafnað Sporting að stigum með sigri á Gaia á útivelli í dag. 
  • Harpa Rut Jónsdóttir skoraði ekki mark fyrir  GC Amicitia Zürich í góðum sigri liðsins á  LC Brühl Handball, 26:24, í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Leikurinn fór fram í Zürich og var heimaliðið með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:9. LC Brühl Handball vann svissneska meistaratitilinn í vor. GC Amicitia Zürich er efst í deildinni með fimm stig að loknum þremur leikjum
  • Hannes Jón Jónsson og samherjar í Alpla Hard mátti sætta sig við tap í heimsókn til Linz, 30:25, í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær. Þetta var fyrsta tap Alpla Hard í deildinni en áður hafði liðið unnið tvisvar sinnum. Linz er efst með sex stig. Handball Tirol er næst með fimm stig. 
  • Finnur Hansson er ekki lengur aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna í Færeyjum. Hann endurnýjaði ekki samning sinn við færeyska handknattleikssambandið eftir að hann tók við þjálfun karlaliðs Klaksvíkur í sumar.  
  • Klaksvík lék í gærkvöld fyrri leikinn við RK Sloboda í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla. Leikið var í Tuzla í Bosníu. Heimaliðið vann með 11 marka mun, 30:19. Liðin mætast á ný í Tuzla í dag. 
  • Ingibjørg Olsen, sem leikið hefur með ÍBV undanfarin tvö ár, hefur fengið félagaskipti til VÍF í Vestmanna í Færeyjum. Ingibjørg er færeysk og hefur átt sæti í landsliðinu.
  • Slavko Goluža var í gærkvöld leystur frá störfum þjálfara RK Zagreb, meistaraliðs karla í Króatíu. Hann hefur aðeins verið tíu mánuði í starfi. Tveir mánuðir eru liðnir síðan Goluža endurnýjaði samning sinn við félagið til eins árs. Þrettán þjálfarar hafa verið við stjórnvölin hjá RK Zagreb frá 2014, þar af nokkrir þeirra oftar en einu sinni. 
  • Danski handknattleiksþjálfarinn Kim Rasmussen er hættur hjá Rapid Búkarest eftir skamma dvöl. Hann tók við þjálfun liðsins í sumar eftir að hafa þjálfað kvennalandslið Suður Kóreu í nokkra mánuði. Rasmussen var sagt upp fyrirvaralaust á föstudagsmorgun ásamt aðstoðarmanni sínum, Bo Rudgaard. Ekki var greint frá ástæðum uppsagnarinnar. Aðeins sagt að um samkomulag hafi verið að ræða um að leiðir skildu. Rasmussen  var þjálfari kvennalandsliðs Póllands frá 2010 til 2016. Annars hefur hann víða farið en hvergi fest rætur, hvorki með félagslið né landslið. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -