- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson og samherjar í norska meistaraliðinu Elverum náðu að herja út oddaleik gegn Fjellhammer í átta liða úrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Eftir tap á heimavelli á dögunum í framlengdum leik þá vann Elverum á heimavelli Fjellhammer í gær, 29:28. Oddaleikurinn verður í Elverum á sunnudaginn. Orri Freyr skoraði ekki mark í gær.
- Drammen féll úr leik í átta liða úrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í gær með öðru tapi fyrir Nærbø, 23:21. Viktor Petersen Norberg skoraði fimm mörk og Óskar Ólafsson tvö fyrir Drammen. Sennilega var þetta síðasti leikur Óskars fyrir Drammenliðið en hann hyggst leggja keppnisskóna á hilluna.
- Íslendingaliðið Skara HF féll í gær úr leik í átta liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna eftir eins marks tap á heimavelli fyrir H 65 Höör, 27:26, í fjórðu viðureign liðanna. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir lauk þar með fyrsta tímabili sínu í sænsku úrvalsdeildinni. Hún skoraði þrjú mörk í gær og átti þrjár stoðsendingar. Aldís Ásta Heimisdóttir sem einnig var að ljúka fyrstu leiktíð sinni í Svíþjóð skoraði tvö mörk og átti þrjár stoðsendingar í leiknum.
- Jakob Lárusson fagnaði öruggum sigri með leikmönnum sínum í Kyndli, 27:19, á liði Neistans í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum færeysku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna í gærkvöld. Leikið var í Höllinni á Hálsi enda bæði lið frá Þórshöfn. Turið Arge Samuelsen fyrrverandi leikmaður Hauka fór á kostum í liði Kyndils og skoraði 16 mörk. Næsti leikur liðanna fer fram á sunnudaginn á sama stað og í gærkvöld.
- Norska kvennaliðið Storhamar vann Fredrikstad Bkl., 33:27, á heimavelli í gær í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum norsku úrvalsdeildarinnar. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar. Elías Már Halldórsson er þjálfari Fredrikstad Bkl og Alexandra Líf Arnarsdóttir er leikmaður liðsins. Hún kom lítið við sögu í gær.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, stóð allan leikinn í marki Ringkøbing Håndbold í naumu tapi á heimavelli fyrir SønderjyskE, 29:28, í umspili neðstu liðanna í úrvalsdeildinni dönsku. Ringkøbing Håndbold er í öðru sæti í fimm liða riðli umspilinu en að því loknu mun neðsta liðið mæta sigurliði úr umspili 1. deildar í úrslitum um keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. SønderjyskE er efst í riðlinum.
- Steinunn Hansdóttir skoraði eitt mark fyrir Skanderborg Håndbold í gær í jafntefli, 30:30, við Horsens í umspili neðstu liðanna í dönsku úrvalsdeildinni. Skanderborg Håndbold er næst neðst í fimm liða riðli umspilsins eftir tvær umferðir af fjórum.
- Auglýsing -