- Auglýsing -
- Færeyska ungstirnið Óli Mittún hefur ótrúlega tölfræði með yngri landsliðum Færeyja. Hann hefur skoraði 355 mörk í 43 leikjum fyrir U18, U19 og U20 ára landsliðins, eða 8,25 mörk að jafnaði í leik. Frá þessu er sagt á in.fo í gærkvöld og vitnað í tölfræði frá Ásbjørn N. Nattestad sem lengi hefur fylgst með færeysku handboltalandsliðunum.
- Eins og kom frá á handbolti.is í gærkvöld þá eru miklar líkur á að Óli verði markakóngur Evrópumóts 20 ára landsliða sem lýkur í Celje í Slóveníu í dag. Óli lauk keppni á mótinu í gær. Hann skoraði 76 mörk í átta leikjum. Næstur er Norðmaðurinn Patrick Helland Andersson með 59 mörk en á leik til góða.
- Óli hefur undanfarin tvö ár leikið með Svíþjóðarmeisturum IK Sävehof en hefur verið orðaður við stórlið í Evrópu eins og t.d. Pick Szeged. Óli verður væntanlega með Sävehof þegar liðið kemur til Íslands og mætir FH í Evrópudeildinni fyrri hluta vetrar.
- Bent Nyegaard, sem eitt sinn þjálfaði handknattleikslið ÍR og Fram og var lengi þjálfari hjá ýmsum félagsliðum, ætlar að draga saman seglin eftir Ólympíuleikana í Frakklandi. Hann hefur í nærri tvo áratugi fylgt dönsku handknattleikslandsliðunum eftir og verið helsti álitsgjafi og meðlýsandi á öllum leikjum landsliðanna fyrir TV2.
- Einkunnagjafir Nyegaard á leikmenn og þjálfara ásamt snörpum palladómum eftir hvern leik þykja nær ómissandi þótt þeir hafi farið fyrir brjóstið á sumum. Eins hafa viðtöl hans við landsliðsþjálfara fyrir eða eftir stórmót þótt góð. M.a. kom hann hingað til lands síðla árs 2016 og talaði við Guðmund Þórð Guðmundsson þáverandi landsliðsþjálfara Dana í sumarbústað þess síðarnefnda.
- Nyegaard ætlar að hætta störfum fyrir TV2 á stórmótum landsliða eftir Ólympíuleikana en heldur áfram að lýsa leikjum í dönsku úrvalsdeildunum og vera álitsgjafi næstu árin en TV2 er með langtíma samning frá útsendingum frá leikjum deildanna.
- Kai Häfner var í gær kallaður inn í þýska landsliðið sem býr sig undir þátttöku á Ólympíuleikunum vegna meiðsla Franz Semper. Häfner verður í hópnum sem mætir Japan í dag og tekur þátt í æfingum í kjölfarið meðan óvissa ríkir um hvort Semper geti tekið þátt í leikunum með þýska landsliðinu. Leikarnir verða settir á föstudaginn og handknattleikskeppni karla hefst daginn eftir.
- Sænski handknattleiksmaðurinn Jonas Larholm hefur lagt skóna á hilluna 42 ára gamall. Hann hefur allra síðustu ár leikið með Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni. Larholm hverfur ekki frá félaginu því hann hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari í fullt starf og verður Jesper Holm þjálfara til halds og trausts næsta árið. Holm var ráðinn til eins árs og á að brúa bil þangað til annar þjálfari mætir eftir ár. Holm er einnig íþróttastjóri félagsins.
- Tveir íslenskir landsliðsmenn leika með Ribe-Esbjerg, Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson. Báðir framlengdu þeir samninga sína við félagið til tveggja ára á síðustu leiktíð.
- Auglýsing -