- Auglýsing -
- Þekktasta handknattleikskona Svartfjallalands, Bojana Popovic, er sögð hætt þjálfun meistaraliðsins Buducnost. Popovic hefur þjálfað liðið í fjögur ár. Hún tók fljótlega við þjálfun eftir að keppnisskórnir fóru upp á hillu. Ekki liggur ljóst fyrir af hverju Popovic er hætt en hún er einnig þjálfari kvennalandsliðs Svartfjallalands.
- Franska handknattleikskonan Beatrice Edwige hefur ákveðið að gefa ekki oftar kost á sér í franska landsliðið. Edwige er 35 ára gömul og hefur nánast átt sæti í öllum leikjum franska landsliðsins síðustu 11 ár. Eftir að víst varð að hún verður ekki í Ólympíuliði Frakka, sem keppir á leikunum, tilkynnti Edwige að hún hafi leikið sinn síðasta landsleik.
- Ein fremsta handknattleikskona Slóveníu, Barbara Lazovic, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna að loknum Ólympíuleikunum í París. Lazovic er 36 ára gömul og hefur einnig leikið með meistaraliði Slóveníu, Krim Ljubljana.
- Spánverjar unnu Argentínumenn með 11 marka munu, 40:29, í vináttulandsleik í handknattleik karla í Huelva á Spáni í gær. Spænska liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda en sjö marka munur var í hálfleik, 18:11. Bæði landslið búa sig undir þátttöku á Ólympíuleikunum í París sem settir verða 26. júlí.
- Auglýsing -