- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar í TuS Metzingen töpuðu naumlega í gær fyrir Borussia Dortmund, 32:30, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í hankdnattleik. Sandra skoraði ekki mark í leiknum en átti eina stoðsendingu. Dortmund, sem er í öðru sæti deildarinnar, var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18:16.
TuS Metzingen er í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig að loknum 19 leikjum af 22. Þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninnar.
- Önnur landsliðskona, Dana Björg Guðmundsdóttir, skoraði níu mörk í 13 skotum og var markahæst hjá Volda þegar liðið komst á sigurbraut á ný í gær eftir tap fyrir Storhamar2 í síðustu viku. Volda vann Fyllingen í gær með 13 marka mun, 34:21, og komst eitt í efsta sæti næst efstu deildar.
- Hvorki Berta Rut Harðardóttir né Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoruðu fyrir Kristianstad HK þegar liðið tapaði fyrir Skövde, 33:26, í Skövde í gær í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Kristianstad HK er í 7. sæti af 12 liðum deildarinnar með 19 stig eftir 21 leik. Liðið á aðeins einn leik eftir og er öruggt um að ná inn í átta liða úrslit úrslitakeppninnar hverjar sem lyktir verða í síðasta leiknum.
- Sigurður Jefferson Guarino og liðsmenn bandaríska landsliðsins töpuðu fyrir breska landsliðinu, 29:25, í undanúrslitum þróunarmóts Alþjóða handknattleikssambandsins í Varna í Búlgaríu í gær. Sigurður skoraði eitt mark í leiknum.
- Bandaríska landsliðið mætir landsliði Nígeríu í leik um 3. sæti mótsins í dag. Lið þjóðanna mættust í riðlakeppni mótsins og gerðu jafntefli, 31:31.
- Búlgaría og Bretland eigast við í úrslitaleik þróunarmótsins sem átta landslið taka þátt í.
- Auglýsing -