- Auglýsing -
- Portúgalska handknattleiksliðið Sporting Lissabon, sem landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson leikur með, hefur verið sektað 15.000 evrur, rúmlega tvær milljónir króna, af Handknattleikssambandi Evrópu vegna hegðunar stuðningsmanna liðsins á tveimur leikjum í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni. Stuðningsmenn kveiktu á blysum og sprengdu reyksprengju á leikjum liðsins. Slíkt er alfarið bannað á kappleikjum innandyra.
- Hollenski landsliðsmaðurinn Dani Baijens hefur samið við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen. Kemur hann til félagsins í sumar frá PSG í Frakklandi. Baijens, sem er 27 ára gamall þekkir vel til í þýsku 1. deildinni. Áður en hann fór til Parísar var hann leikmaður Flensburg, Lemgo, og Hamburg. Hollendingurinn á að fylla skarð Juri Knorr sem flytur til Álaborgar í sumar. Talsverðar breytingar verða á leikmannahópi Rhein-Neckar Löwen. M.a. kemur Haukur Þrastarson til félagsins.
- Danski handknattleiksmaðurinn Emil Bergholt gengur til liðs við þýska liðið Flensburg sumarið 2026. Bergholt leikur með Skjern á Jótlandi og var í fyrsta sinn valinn til þátttöku með danska landsliðinu á HM sem fram fór í janúar sl. Flensburg hefur löngum laðað danska handknattleiksmenn til sín enda stutt fyrir þá að fara, rétt yfir landamærin.
- Bergholt á að fylla skarðið sem Johannes Golla skilur eftir sig þegar hann gengur til liðs við MT Melsungen sumarið 2026.
- Sebastian Seifert var í gær sagt upp starfi þjálfara danska úrvalsdeildarliðsins Kolding. Þetta fornfræga danska lið rekur lestina í úrvalsdeild karla þegar þrjár umferðir eru eftir óleiknar Aðeins eitt lið fellur rakleitt niður úr deildinni.
- Auglýsing -