- Auglýsing -
- Sigurdís Sjöfn Freysdóttir, markvörður, hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild FH til ársins 2025. Sigurdís gekk til liðs við FH frá Fjölni sumarið 2022.
- Katrine Lunde, þrautreyndur markvörður heims- og Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna meiddist í viðureign Evrópumeistara Vipers og franska liðsins Metz í Meistaradeild kvenna um síðustu helgi. Aðeins er mánuður í að HM kvenna og óvíst er hvort Lunde, sem hefur ríflega 20 ára landsliðsreynslu, verði klár í slaginn þegar HM hefst. Lunde hefur um langt árabil verið ein allra besti markvörður heims og reynsla hennar skiptir norska landsliðið miklu máli.
- Brasilía verður fulltrúi Ameríku í handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum á næsta ári. Brasilíska landsliðið stóð uppi sem sigurvegari í forkeppni Ólympíuleikanna í Suður- og Mið Ameríku sem lauk um síðustu helgi í Santiago í Chile. Í úrslitaleik vann brasilíska landsliðið það argentínska, 28:18.
- Fimm sæti af 12 eru þar með skipuð í handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum á næsta ári. Auk Brasilíu eru heimsmeistarar Noregs komnir með farseðil til Frakklands, Angóla, Suður Kórea og Frakkland sem gestgjafi leikanna.
- Þessa daga stendur yfir forkeppni fyrir Ólympíuleikana í Suður- og Mið Ameríku í karlaflokki. Landslið átta þjóða bítast um einn farseðil á mótinu sem haldið er í Viña del Mar í Chile. Úrslit mótsins liggja fyrir á laugardagskvöld.
- Ekkert verður af viðureign ísraelska liðsins Maccabi Haarazim Ramat Gan og Ankara Yenimahalle BSK frá Tyrklandi í Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik, 3. umferð, sem til stóð að færi fram í Ankara í 11. og 12. nóvember. Handknattleikssamband Evrópu tilkynnti í byrjun vikunnar að leikirnir verði felldir niður. Vegna ástandsins í Ísrael liggur íþróttastarf niðri og ísraelskir íþróttamenn ferðast ekki frá landinu. Ankara Yenimahalle BSK tekur því sæti í 16-liða úrslitum en ísraelska liðið er úr leik.
- Auglýsing -