- Auglýsing -
- Sigurjón Guðmundsson og samherjar í norska liðinu Charlottenlund unnu Tiller, 28:27, á heimavelli í hnífjöfnum leik á heimavelli í gær í næst efstu deild norska handknattleiksins.
- Sigurjón stóð í marki Charlottenlund allan leikinn og varði 13 skot, 33%. Tiller-ingar voru marki yfir í hálfleik, 12:11. Sigurjón og félagar sneru við taflinu í síðari hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik, síðast 28:24. Leikmenn Tiller höfðu ekki sagt sitt síðasta orð og gerðu harða hríð að Charlottenlund undir lokin en tókst ekki að jafna metin.
- Charlottenlund er efst í deildinni ásamt Viking TIF og Sanderfjord. Hvert lið hefur 20 stig eftir 13 umferðir.
- Ólöf Elna Guðjónsdóttir, sambýliskona Sigurjóns, leikur með Strindheim í 2. deild, riðli 04. Hennar lið lék ekki í gær en mætir Klæbu á útivelli á miðvikudaginn.
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði tvö mörk fyrir TMS Ringsted í fyrsta leik ársins í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. TMS Ringsted tapaði fyrir Holstebro, 28:21. Leikið var í Holstebro á Jótlandi. TMS Ringsted er í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar með sjö stig eftir 11 leiki. Holstebro er í þriðja sæti með 13 stig. Høj hefur yfirburði í deildinni, níu leikir, níu vinningar.
- Andrea Gunnlaugsdóttir markvörður gekk um áramótin til liðs við Olísdeildarlið Gróttu. Hún hefur síðustu ár verið markvörður Fram en samkeppnin er mikil hjá liðinu. Andrea hefur einnig verið markvörður hjá ÍBV og Val. Hennar fyrsti leikur með Gróttu var í gær gegn sínum fyrri samherjum í Fram.
- Auglýsing -