- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sjö mörk og var markahæstur hjá Kolstad ásamt Simon Jeppsson þegar Kolstad vann Follo, 33:26, í áttundu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði eitt mark en Sveinn Jóhannsson ekkert. Kolstad er í öðru sæti deildarinnar með 14 stig að loknum átta leikjum.
- Sigurjón Guðmundsson og félagar í Charlottenlund töpuðu með eins marks mun á heimavelli, 38:37, fyrir Viking TIF í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Charlottenlund er í sjötta sæti af 14 liðum deildarinnar. Sigurjón varði sjö skot í mark Charlottenlund þann tíma sem hann stóð vaktina, 26%.
- Bergischer HC, sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar er áfram í efsta sæti þýsku 2. deildarinnar eftir sigur á Elbflorenz, 32:31, á heimavelli í gær. Tjörvi Týr Gíslason skoraði ekki mark í leiknum fyrir Bergischer HC.
- HBW Balingen-Weilstetten sem Daníel Þór Ingason leikur með vann TuS Ferndorf, 26:24, á heimavelli Ferndorf en síðarnefnda liðið hefur komið mörgum á óvart í upphafi leiktíðar. Daníel Þór skoraði ekki mark. Hann átti eitt markskot sem geigaði, var einu sinni vikið af leikvelli og átti eina stoðsendingu.
- Balingen er í öðru sæti 2. deildar með 13 stig eftir níu leik, tveimur stigum á eftir Bergischer auk þess að eiga leik til góða.
- Elmar Erlingsson og samherjar í HSG Nordhorn-Lingen unnu nauðsynlegan sigur í þýsku 2. deildinni á laugardaginn þegar þeir lögðu Eulen Ludwigshafen, 28:25, á heimavelli í níundu umferð deildarinnar. Elmar skoraði tvö mörk í leiknum og var einu sinni vikið af leikvelli. Þrátt fyrir sigurinn situr HSG Nordhorn-Lingen enn í 15. sæti deildarinnar með sex stig.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sjö mörk, eitt þeirra úr vítakasti þegar Kadetten Schaffhausen vann TSV St. Otmar St. Gallen, 37:22, á útivelli í svissnesku A-deildinni á laugardaginn. Óðinn Þór var með fullkomna skotnýtingu. Kadetten Schaffhausen er efst í deildinni með 20 stig að loknum 11 leikjum.
- Auglýsing -