- Auglýsing -
- Svo virðist sem fregnir af hollenska landsliðsmanninum Luc Steins séu orðum auknar en flugufregnir hafa verið á sveimi síðustu daga um að Steins vilji fara frá franska meistaraliðinu PSG. Hafa skipti til Barcelona og Gummersbach m.a. verið nefnd. Þessar fregnir munu vera enn eitt dæmið um fjöðrina sem varð að hænu. Steins er sagður lukkulegur í París og hafi alls ekki uppi áform um annað en að uppfylla samning sinn við PSG. Samningurinn rennur út eftir hálft fjórða ár.
- Heimsmeistarar Danmerkur í handknattleik karla leika vináttuleiki við Noreg 8. janúar og gegn Grikkjum tveimur dögum síðar. Báðir leikir fara fram í Danmörku. Eftir að hafa unnið heimsmeistaramót karla fjórum sinnum í röð þrá Danir fátt heitara en að verða Evrópumeistarar 2026. Þrátt fyrir mikla velgengni á síðustu árum hefur danska landsliðið ekki orðið Evrópumeistari í 14 ár.
- Fyrsti leikur danska landsliðsins á EM verður gegn Norður-Makedóníu 16. janúar í Jyske Bank Boxen í Herning. Einnig á danska landsliðið fyrir höndum viðureignir við landslið Rúmeníu og Portúgal áður en riðlakeppninni verður lokið.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar
- Hollenska landsliðskonan Angela Malestein hefur skrifað undir nýjan samning við ungverska liðið FTC (Ferencváros). Malestein hefur verið kjölfesta í liði FTC síðustu sex ár og leikið nærri 250 leiki og skorað tæplega 1.100 mörk.
- Emmanuel Mayonnade, hinn snjalli þjálfari franska meistaraliðsins Metz, dregur ekki dul á vonbrigði sín vegna þeirrar ákvörðunar frönsku landsliðskonunnar Sarah Bouktit að ætla að kveðja félagið í vor. Bouktit hefur samið við Evrópumeistara Györ frá og með næstu leiktíð. Bouktit kom til Metz fyrir 10 árum sem 14 ára gamall táningur. Henni óx fljótt ásmegin og 17 ára að aldri fékk hún atvinnumannasamning hjá félaginu og er nú ein fremsta handknattleikskona Frakklands þótt hún sé enn ung að árum.
- Norska handknattleikskonan Emilie Arntzen kveður Ikast í sumar og gengur til liðs við rúmenska liðið SCM Râmnicu Vâlcea. Arntzen, sem er 32 ára gömul, hefur ekki átt fast sæti í norska landsliðinu á allra síðustu árum en frá 2014 til 2022 vann hún sjö sinnum til verðlauna með landsliðinu.
- Auglýsing -




