- Auglýsing -
- Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur mörk í stórsigri Benfica á Marítimo Madeira Andebol Sad, 44:28, í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Þetta var upphafsleikur 11. umferðar. Benfica er í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig að loknum 11 leikjum. Sporting er efst með 30 stig eftir 10 leiki og Porto er með 29 stig, einnig að loknum 10 leikjum. Stöðuna í portúgölsku 1. deildinni og fleiri deildum Evrópu er að finna hér.
- Svíinn Daniel Pettersson skoraði 26 mörk í 27 skotum þegar Evrópumeistarar SC Magdeburg unnu ástralska liðið University of Queensland, 57:14, í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistaramóts félagsliða í handknattleik í gær. Keppnin fer fram í Dammam í Sádi Arabíu. Talið er að Pettersson hafi sett heimsmet í fjölda skoraðra marki í leik meistaraflokksliða karla.
- Lukas Mertens skoraði 12 mörk í 14 skotum fyrir Magdeburg. Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk og átti níu stoðsendingar og Ómar Ingi Magnússon skoraði úr einu vítakasti en gaf sjö stoðsendingar. Sergey Hernandez markvörður þýska liðsins var með 65% hlutfallsmarkvörslu.
- Haukur Þrastarson og samherjar í Barlinek Industria Kielce unnu einnig auðveldlega sinn andstæðing á heimsmeistaramóti félagsliða. Kielce lagði liðsmenn bandaríska liðsins San Francisco, 49:23. Haukur skoraði ekki mark í leiknum en átti fjórar stoðsendingar á þeim 30 mínútum sem hann var með.
- Undanúrslit heimsmeistaramótsins fara fram síðdegis á morgun. SC Magdeburg og Barlinek Industria Kielce mætast í annarri viðureigninni og Barcelona og Füchse Berlin í hinni.
- Daninn Mathias Gidsel skoraði 13 mörk og átti fimm stoðsendingar í sigurleik Füchse Berlin á Kuwait SC, 37:28, í lokaumferð heimsmeistaramóts félagsliða í gær.
- Auglýsing -