- Auglýsing -
- Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson slá ekki slöku við dómgæslu á Evrópumóti 20 ára lansliða karla í Celje og Lasko í miðri Slóveníu. Í dag kemur í þeirra hlut að dæma viðureign Ungverja og Króata í riðli tvö í keppni um sæti níu til sextán á mótinu. Leikurinn fer fram í Tri Lilije hall í Lasko, litlum bæ skammt frá Celje. Þetta verður fjórði leikurinn sem Svavar og Sigurður dæma á mótinu.
- Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður á leik Sviss og Grikklands í riðli tvö á Evrópumóti 20 ára landsliða síðdegis í dag. Leikurinn verður í Dvorana Golovec, minni keppnishöllinni í Celje. Hlynur hefur haft í mörg horn að líta á mótinu en viðureignin í dag verður sú sjötta sem hann hefur auga á í mótinu. Suma leikdagana í upphafi mótsins var Hlynur eftirlitsmaður á tveimur viðureignum sama daginn.
- Slóvakarnir Boris Mandak og Marion Rudunsky dæma viðureign Íslands og Portúgals í fyrstu umferð riðlakeppni í átta liða úrslitum Evrópumóts 20 ára landsliða í handknattleik í dag.
- Eftir að hafa leikið þrjá fyrstu leikina í Tri Lilije hall í Lasko leikur íslenska landsliðið í dag í Dvorana Zlatorog, stóru keppnishöll í Celje. Hún rúmar 5.500 og er afar glæsilegt mannvirki. Íslensku piltarnir æfðu í keppnishöllinni í Celje í gær og komust aðeins í kynni við umhverfið.
- Viðureign Ísland og Portúgal á EM 20 ára landsliða hefst klukkan 12.20 í dag að íslenskum tíma. Handbolti.is verður með textalýsingu úr keppnishöllinni í Celje og viðbrögð leikmanna og þjálfara í leikslok.
- Auglýsing -