- Auglýsing -
- Teitur Örn Einarsson skoraði fimm mörk og Elliði Snær Viðarsson fjögur mörk þegar Gummersbach vann THW Kiel, 40:37, á æfingamóti í Bosníu í gær. Að vanda var Guðjón Valur Sigurðsson við stjórnvölin hjá Gummersbach.
- Arnór Þór Gunnarsson og liðsmenn hans í Bergischer HC gerðu jafntefli við Wetzlar í æfingaleik, 32:32. Bergischer var um skeið með sex marka forskot í leiknum. Liðið verður nýliði í efstu deild þýska handknattleiksins á komandi tímabili eftir yfirburðasigur í næsta efstu deild í vor.
- Þýska meistaraliðið SC Magdeburg, með Elvar Örn Jónsson, Gísla Þorgeir Kristjánsson og Ómar Inga Magnússon innanborðs, hefur þátttöku í Wartburger–Cup í Eisenach í dag. Magdeburg mætir Lemgo í fyrstu umferð.
- Línumaðurinn öflugi Victor Iturriza hefur kvatt FC Porto rétt áður en keppnistímabil hefst. Hann hefur ásamt Vladan Lipovina samið við Kuwait SC. Iturriza hefur leikið með Porto í á annan áratug. Lipovina hefur leikið í Kúveit í nærri tvö ár en hann gerði áður garðinn frægan í Þýskalandi.
- Sandra Zapletal er eina konan sem er þjálfari landsliðs á heimsmeistarmóti 19 ára landsliða karla í handknattleik sem stendur yfir í Kaíró í Egyptalandi. Zapletal er þjálfari austurríska landsliðsins.
- Þýski markvörðurinn Bart Ravensbergen sem gekk til liðs við Wetzlar í sumar frá Göppingen leikur ekki með Wetzlar á komandi leiktíð. Ravensbergen sleit krossband í hné á dögunum. Forráðamenn Wetzlar verða þar með að leggjast í leit að markverði.
- Portúgalski markvörðurinn Manuel Gaspar hefur tekið fram skóna á nýjan leik eftir nokkuð langa fjarveru vegna veikinda. Gapsar hefur samið við US Ivry sem féll úr efstu deild franska handknattleiksins í vor. Gaspar, sem lék lengi með Sporting Lissabon, þekkir vel til í Frakklandi eftir að hafa leikið með Nantes, Dijon og Chartres.
- Auglýsing -