- Auglýsing -
- Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark þegar IFK Kristianstad vann Hammarby, 27:22 í riðli sex í 32 liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í handknattleik í gærkvöld. Hammarby var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15. IFK Kristianstad hefur unnið einn leik og tapað öðrum en þriðja viðureignin er eftir, gegn Anderstorps á útivelli á sunnudaginn. Eftir þá viðureign skýrist hvort liðið kemst í 16-liða úrslit eða ekki. 32-liða úrslit bikarkeppninnar í Svíþjóð er leikin í átta fjögurra liða riðlum.
- Guðjón Ingi Sigurðsson hefur skrifað undir langtímasamning við Vængi Júpiters sem andlegur styrktarþjálfari og leikmaður eftir því sem fram kemur á Facebook-síðu Vængjanna í gær. Liðið leikur annað árið í röð í Grill66-deildinni á næsta keppnistímabili.
- Karlalið Gróttu í handknattleik er á leið í æfingabúðir á Blönduósi um næstu helgi. Verður þetta annað árið í röð sem liðið dvelur þar við æfingar áður en Íslandsmótið hefst. Æfingaðstaða á Blönduósi er til mikils sóma. M.a. ætla Gróttumenn að leika æfingaleik við Hörð frá Ísafirði á föstudagskvöld og gegn KA á laugardaginn.
- Kvennalandslið Grænlands í handknattleik vann Púertó Ríkó, 26:23, í lokaumferð undankeppni HM í Ameríku í gærkvöld. Leikið er í Elgin í Illinois, skammt frá Chicago. Fyrir leikinn í gærkvöld voru landslið beggja þjóða örugg um sæti á HM sem fram fer á Spáni í desember. Aðeins fjögur landslið tóku þátt. Landslið Bandaríkjanna og Mexíkó sitja eftir.
- Auglýsing -