- Auglýsing -
- Helle Thomsen hefur verið ráðin landsliðsþjálfari Danmerkur í handknattleik kvenna. Hún er fyrsta konan sem þjálfar landsliðið í nærri 60 ár. Thomsen mun til að byrja með vera áfram þjálfari rúmenska meistaraliðsins CSM Búkarest. Hún segist gjarnan vilja sinna báðum störfum. Talsmaður danska handknattleikssambandsins segir það í besta falli koma til greina að hún sinni báðum störfum næst árið, ekki lengur.
- Danska handknattleikssambandið vill gjarnan að landsliðsþjálfarar sinni ekki öðrum störfum. Varð það m.a. til þess að Jesper Jensen endurnýjaði ekki samning sinn sem var að renna út og ákvað að ráða sig frekar til ungverska liðsins FTC.
- Thomsen er þrautreynd þegar kemur að þjálfun. Auk þess að hafa þjálfað mörg félagslið var hún landsliðsþjálfari Svíþjóðar 2014 til 2015 og Hollands frá 2016 til 2018.
- Else Birkmose var landsliðsþjálfari Dana frá 1963 til 1965. Síðan hafa karlar sinnt starfinu sem er áhugavert út af fyrir sig sökum þess mikla áhuga sem er fyrir handknattleik kvenna í Danmörku.
- Uppstokkun er þegar hafin hjá danska handknattleiksliðinu KIF Kolding eftir að karlalið þessa fornfræga danska liðs féll úr úrvalsdeildinni á laugardaginn. Christian Hjermind framkvæmdastjóra var sagt upp í gærmorgun. Hann hafði unnið fyrir félagið í tæp fimm ár. Ekki er langt síðan að Lars Christiansen var sagt upp starfi íþróttastjóra félagsins frá og með sumrinu.
- Uppsögn Hjermind kom í kjölfar þess að formaður stjórnar KIF Kolding sagði sig frá embætti á sunnudaginn. KIF Kolding hefur fjórtán sinnum orðið danskur meistari í karlaflokki og í átta skipti unnið bikarkeppnina.
- Allan Lund fyrrverandi landsliðsþjálfari Dana í handknattleik lést á dögunum 80 ára gamall. Lund var framkvæmdastjóri danska íþrótttaháskólans frá 1975 til 2007. Hann sat einnig í stjórn Handknattleikssambands Evrópu frá 2000 til 2012 auk þess að vera eftirlitsmaður á kappleikjum á vegum EHF um árabil.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -