- Auglýsing -
- Tryggvi Þórisson og félagar í sænska meistaraliðinu IK Sävehof færðust upp í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í gær eftir þeir unnu IFK Kristianstad, 33:29, á heimavelli. Tryggvi kom aðallega við sögu í varnarleik Sävehof. Færeyingurinn Óli Mittún átti stórleik. Hann skoraði 13 mörk í 16 skotum og fengu leikmenn Kristianstad ekkert við hann ráðið.
- Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði tvö mörk í fimm skotum fyrir lið IFK Kristinastad sem er í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir tapið fyrir Sävehof í gær, 33:29.
- Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði tvö mörk þegar HK Karlskrona tapaði á útivelli fyrir efsta liði sænsku úrvalsdeildarinnar, Ystads IF HF, 34:30, í gær. Ólafur Andrés Guðmundsson var í leikmannahópi Karlskrona en skoraði ekki. Þorgils Jón Svölu Baldursson var fjarri góðu gamni. Phil Döhler, fyrrverandi markvörður FH, stóð í marki Karlskrona hluta leiksins og varði 3 skot, 18%.
- Karlskrona er í sjötta sæti deildarinnar með 15 stig eins og IFK Kristianstad, Sävehof, Skövde og Hammarby. Stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk úr 12 skotum þegar lið hans, Amo HK, vann annan leik sinn í röð í gær í sænsku úrvalsdeildinni. Amo hefur sótt í sig veðrið eftir þjálfaraskiptin á dögunum. Amo lagði Önnereds á útivelli í gær, 37:36, eftir að hafa skorað þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins.
- Amo HK er ennþá í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með 10 stig eftir 13 leiki og er stigi á eftir Helsingborg sem á leik til góða.
- Ýmir Örn Gíslason fyrirliði Göppingen skoraði ekki mark og virtist lítið hafa komið við sögu þegar liðið tapaði fyrir Stuttgart í botnslag þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í gær, 30:26. Leikið var í Stuttgart en þetta var aðeins annar sigur Stuttgart á leiktíðinni.
- Göppingen er í 15. sæti af 18 liðum þýsku 1. deildarinnar með sex stig. Erlangen gerði jafntefli við Bietigheim, 25:25, í gær og er stigi á eftir Göppingen.
- Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -