- Auglýsing -
- Viggó Kristjánsson fór með himinskautum þegar Stuttgart vann Balingen, 30:28, í þýsku 1. deildinni í handknattleik á útivelli í gærkvöld. Viggó skoraði 11 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum og var besti maður vallarins í leiknum. Honum brást aðeins bogalistin í tveimur skotum í leiknum. Elvar Ásgeirsson skoraði ekki mark fyrir Stuttgart. Oddur Gretarsson skoraði tvö af mörkum Balingen, annað úr vítakasti.
- Stuttgart hefur þar með unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni það sem af er leiktíðar. Viggó hefur skorað samtals 24 mörk og er á meðal markahæstu leikmanna. Balingen er án stiga.
- Þá gerðust þau tíðindi í gær að Wetzlar vann stórsigur á meisturum Kiel, 31:22, á heimavelli. Kiel tapar ekki á hverjum degi, hvað þá með miklum mun.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk þegar EHV Aue vann Ferndorf, 26:23, í þýsku 2. deildinni í gærkvöld á útivelli. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki Aue í 20 mínútur í leiknum og varði þrjú skot. Aue-liðið lék vel í síðari hálfleik. Eftir að hafa verið 14:12 undir í hálfleik og átt undir högg að sækja framan af síðari hálfleik sneri liðið viðureigninni sér í hag og vann kærkominn og öruggan sigur.
- Góður leikur Arons Rafn Eðvarðssonar í marki Bietigheim dugði liðinu ekki á heimavelli gegn Bayer Dormagen í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Aron Rafn varði 15 skot, þar af eitt vítakast og var með nærri 37% hlutfallsmarkvörslu er liðið tapaði með einu marki, 26:25. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Bietigheim sem var að leika sinn fyrsta leik í deildinni. Liðið sat yfir í fyrstu umferð fyrir viku. Nítján lið eru í 2. deild og þess vegna situr eitt lið yfir í hverri umferð.
- Aaron Ziercke hefur sagt starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari Letta í handknattleik karla. Ziercke stýrði landsliðinu ekki í einum leik. Hann var ráðinn snemma árs þegar forveri hans, Armands Uscin, hætti eftir að hafa komið liðinu á EM í byrjun ársins og verið við stjórnvölin í leikjum Letta á mótinu. Ziercke tók við en vegna kórónuveirunnar þá varð ekkert af leikjum í undankeppni HM í vor. Ziercke er einnig þjálfari þýska 2.deildarliðsins TV Emsdetten. Hann segir á Facebook-síðu Emsdetten að hann hyggist einbeita sér að þjálfun liðsins og gefa landsliðsþjálfarastarfið upp á bátinn.
- Auglýsing -