- Auglýsing -
- Danska meistaraliðið Odense Håndbold hefur staðfest að hafa gert tveggja ára samning við rússnesku handknattleikskonuna Anna Vyakhireva. Hún kemur til Danmerkur næsta sumar. Samningurinn er til tveggja ára. Vyakhireva er að margra mati besta örvhenta handknattleikskona heims. Hún leikur nú með Brest í Frakklandi. Vyakhireva var seld til félagsins frá Vipers sumarið 2024 þegar forráðamenn norska liðsins freistuðu þess að bjarga félaginu frá gjaldþroti.
- Hollenski handknattleiksmaðurinn Kay Smits tilkynnti á föstudaginn að hann gefi ekki kost á sér í hollenska landsliðið sem tekur þátt í Evrópumótinu í næsta mánuði. Smits, sem er einn öflugasti leikmaður Hollands, hefur lítið leikið með landsliðinu undanfarin ár vegna hjartakrankleika sem lengi héldu honum frá keppni. Smits hefur leikið vel og truflunarlaust með Gummersbach í vetur. Hann þarf hins vegar að gæta að álagi og gefur þar af leiðandi ekki kost á sér í landsliðið að þessu sinni.
- Hollensku landsliðskonurnar Estavana Polman og Lois Abbingh hafa ákveðið að hætta með hollenska landsliðinu að loknu heimsmeistaramótinu. Þær hafa leikið með hollenska landsliðinu í 15 ár og voru m.a. heimsmeistarar fyrir sex árum. Báðar ætla að halda áfram að leika með félagsliðum sínum. Polman er hjá Rapid Búkarest og Abbingh er með Borussia Dortmund.
- Móðir þýsku landsliðskonunnar, Emily Vogel (áður Bölk), Andrea Bölk, var í sigurliði Þýskalands á HM kvenna fyrir 32 árum. Hún vonast innilega til þess að dóttirin feti í sín fótspor í dag þegar þýska landsliðið mætir norska landsliðinu í úrslitaleik HM kvenna í Rotterdam klukkan 16.30.
- Þýski handknattleiksmarkvörðurinn Silvio Heinevetter er ekki af baki dottinn þótt hann sér kominn inn á fimmtudagaldur. Hann hefur framlengt samning sinn við Eisenach til eins árs, fram á mitt árið 2027. Heinevetter er einn þekktasti markvörður þýska handboltans í seinni tíð. Hann á að baki 206 landsleiki og lék í 11 ár með Füchse Berlin en hefur einnig m.a. verið markvörður SC Magdeburg, MT Melsungen og Stuttgart.
- Hendrik Pekeler línumaður THW Kiel lék með liðinu á nýjan leik gegn Stuttgart, 33:32, á miðvikudagskvöld. Pekeler sleit hásin undir lok síðasta keppnistímabils.
- Ein af vonarstjörnum sænsks handknattleiks í karlaflokki, Axel Månsson, hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið HØJ frá og með næstu leiktíð. Månson er núna samherji Einars Braga Aðalsteinssonar hjá IFK Kristianstad.
- Auglýsing -




