- Auglýsing -
- Áfram ganga sögusagnir um hugsanleg kaup Evrópumeistara SC Magdeburg á þýska landsliðsmarkverðinum Andreas Wolff frá Industria Kielce í sumar. Sport Bild segist hafa heimildir fyrir að Industria Kielce vilji frá 1,2 milljónir evra, jafnvirði um 180 milljónir króna, fyrir markvörðinn sem er samningsbundinn til ársins 2028. Upphæðin nemur um tíunda hluta af ársveltu SC Magdeburg og stendur þar með nokkuð í forráðamönnum félagsins en lið þess verður væntanlega þýskur meistari á næstu dögum.
- Forráðamenn SC Magdeburg horfa í kringum sig eftir markverði. Nokkrar líkur er á svissneski markvörðurinn Nikolas Portner verður dæmdur í keppnisbann vegna ólöglegrar lyfjanotkunar og eigi vart afturkvæmt til félagsins. Reyndar getur félagið sagt upp samningi sínum við Portner hljóti hann keppnisbann.
- Dean Bombac leikstjórnandi Pick Szeged verður ekki með liðinu í síðari úrslitaleiknum við Telekom Veszprém á morgun. Bombac hlaut þungt höfuðhögg í fyrri úrslitaleik liðanna á föstudaginn. Afleiðingarnar voru heilahristingur auk kjálkabrots.
- Í tilkynningu frá Pick Szeged kemur ennfremur fram að einnig finni Bombac fyrir sjóntruflunum sem vonir standi til að gangi til baka á næstu dögum. Forráðamenn Pick Szeged hafa sent inn formlega kvörtun til ungverska handknattleikssambandsins vegna þess að Patrik Ligetvári leikmanni Veszprém var ekki gerð refsing fyrir harkalegan varnarleik.
- Ingo Meckes hefur verið ráðinn íþróttastjóri þýska handknattleikssambandsins og um leið talsmaður þess. Hann tekur við að Axel Kromer sem gegnt hefur starfinu í 12 ár. Talsvert fjaðrafok hefur verið innan handknattleikshreyfingarinnar í Þýskalandi eftir að það spurðist út fyrir nokkrum vikum að ekki stæði til að endurnýja samningin við Kromer sem rennur út á næstu mánuðum. Meckes hefur starfað fyrir handknattleikssamband Sviss og þótt sýna töluverðan vaskleika í störfum sínum.
- RK Vojvodina varð á sunnudaginn serbneskur meistari í handknattleik karla ellefta árið í röð. RK Vojvodina vann RK Metaloplastika Sabac í tveimur leikjum í úrslitaeinvígi. Evrópubikarmeistarar Vals unnu RK Metaloplastika Sabac í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í vetur.
- Eftir að Tékkinn góðkunni, Daniel Kubeš, var leystur frá starfi þjálfara Nordhorn í Þýskalandi í desember hefur hann verið án atvinnu. Nú er að rofa til hjá honum. Kubeš tekur í sumar við þjálfun Dukla Prag í heimalandi sínu, Tékklandi.
- Auglýsing -