- Auglýsing -
- Áfram gengur ekki sem skildi hjá Ými Erni Gíslasyni og félögum í Göppingen. Í gær töpuðu þeir þriðja leiknum í þýsku 1. deildinni þegar Hannover-Burgdorf kom í heimsókn og fór með bæði stigin í farteskinu heim, lokatölur, 33:31. Ýmir Örn skoraði eitt mark. Göppingen hefur eitt stig að loknum fjórum leikjum. Hannover-Burgdorf er í hópi nokkurra liða með sex stig í efri hluta deildarinnar. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
- Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark í kærkomnum sigri Balingen-Weilstetten á Elbflorenz í Dresden, 35:31, á útivelli í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Balingen-Weilstetten situr í áttunda sæti með fjögur stig eftir fjóra leiki.
- Stöðuna í þýska handboltanum og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu í sigurleik Alpla Hard á Krems í fimmtu umferð austurrísku 1. deildarinnar í handknattleik í gærkvöld, 27:23. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard sem fyrr. Hard er í þriðja sæti deildarinnar með sex stig eftir fimm leiki, fjórum stigum á eftir Füchse, stigi á eftir Krems.
- TTH Holstebro, liðið sem Arnór Atlason þjálfar í dönsku úrvalsdeildinni tapaði naumlega fyrir GOG, 31:30, í fjórðu umferð deildarinnar í gær en leikið var á heimavelli GOG á Fjóni. TTH Holstebro var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15. Holstebro fékk tækifæri til að vinna a.m.k. eitt stig en m.a. brenndu leikmenn af tveimur vítaköstum og einu dauðafæri á síðustu mínútum.
- TTH Holstebro er i 9. sæti af 14 með þrjú stig en engu að síður er annar og betri bragur að komast á liðið undir stjórn Arnórs en áður var.
- Grétar Ari Guðjónsson varði tvö skot á þeim skamma tíma sem hann fékk í marki US Ivry í gær þegar liðið mætti PAUC á heimavelli og tapaði, 34:30. US Ivry hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabilsins og rekur lestina í frönsku 1. deildinni án stiga eftir fjóra leiki.
- Stöðuna í frönsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -