- Auglýsing -
- Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark og var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur þegar Rhein-Neckar Löwen vann Balingen með níu marka mun í Balingen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark fyrir Balingenliðið. Daníel Þór var einu sinni vísað af leikvelli. Oddur Gretarsson er ennþá á sjúkralista og lék því ekki með Balingen í leiknum. Rhein-Neckar Löwen situr í 10. sæti. Balingen er hins vegar í slæmum málum í neðsta sæti.
- Janus Daði Smárason skoraði ekki mark og kom reyndar ekkert mikið við sögu í sigri Göppingen á Erlangen, 25:23, í Nürnberg í gærkvöld í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen. Göppingen er í sjöunda sæti deildarinnar, sex sætum fyrir ofan Erlangen.
- Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar lið hans Lemgo tapaði fyrir Füchse Berlín, 29:24, í Berlín í gær en leikur liðanna var í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Bjarka Má brást bogalistin í þremur vítaköstum í leiknum sem er harla óvenjulegt. Lemgo er í þriðja sæti deildarinnar.
- Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar Stuttgart steinlá í heimsókn til Hannover-Burgdorf, 33:23, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Viggó Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Stuttgart. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Stuttgart situr i 15. sæti af 18 liðum deildarinnar. Hannover-Burgdorf er í 14. sæti.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og liðsmenn hans í Kadetten Schaffhausen verja ekki bikarmeistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss þetta árið. Þeir töpuðu í gærkvöld fyrir Pfadi Winterthur, 25:23, í Winterthur í undanúrslitaviðureign liðanna. Aðalsteinn stýrði Kadetten til sigurs í bikarkeppninni fyrir ári.
Staðan í þýsku 1. deildinni í handknattleik eftir leikina í gærkvöld:
Standings provided by SofaScore LiveScore
- Auglýsing -