- Auglýsing -
- Ýmir Örn Gíslason skoraði þrjú mörk þegar Göppingen tapaði fyrir HSG Wetzlar, 30:26, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Göppingen var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:10. Göppingen situr í 14. sæti af 18 liðum deildarinnar með 13 stig eftir 23 leiki af 34.
- Hinn hálfíslenski Viktor Petersen Norberg skoraði fimm af mörkum Wetzlar í leiknum við Göppingen í gær. Einnig átti Viktor eina stoðsendingu. Wetzlar er í 12. sæti með 18 stig.
- Andri Már Rúnarsson skoraði ekki mark fyrir Leipzig í gær í níu marka tapi liðsins á heimavelli í leik við Lemgo, 26:35. Andri Már átti þrjár stoðsendingar.
- Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar, er í 13. sæti eð 17 stig að loknum 23 leikjum.
- Hvorki Arnór Viðarsson né Tjörvi Týr Gíslason skoruðu fyrir Bergischer HC í sigurleik á Hüttenberg, 32:27, í 2. deild þýska handknattleiksins í gær. Arnór Þór Gunnarsson er annar þjálfari Bergischer HC sem er í efsta sæti deildarinnar með 36 stig að loknum 23 leikjum. Bergischer sex stigum á undan GWD Minden sem er í öðru sæti en á að vísu leik inni.
- Elmar Erlingsson skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar í jafntefli Nordhorn-Lingen, 22:22, gegn Dessau-Rosslauer HV 06 í 2. deild þýska handknattleiksins í gær. Nordhorn er í 6. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 22 leiki.
- Arnór Atlason þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins TTH Holstebro fagnaði stórsigri á heimavelli í gær á Kolding, 37:27. Holstebro fór upp í áttunda sæti með sigrinum með 21 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Kolding rekur lestina í deildinni og veldur staða liðsins forsvarsmönnum þess talsverðum áhyggjum.
- Annar íslenskur þjálfari, Elías Már Halldórsson, stýrði liði sínu, Fredrikstad Bkl til sigurs á Gjerpen, 40:26, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Fredrikstad Bkl er í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 22 leiki.
- Auglýsing -