- Auglýsing -
- Auglýsing -

​​​​​Mömmurnar sjá um sína!

Hér á myndinni er Sigríður Sigurðardóttir, fyrirliði, til hægri, að heilsa Toni Røsseler, fyrirliða Danmerkur í fyrsta HM-leiknum. Dómari var Svíinn Victor C. Nilsson.
- Auglýsing -

Það voru fjórar mæður sem léku í landsliðinu í handknattleik þegar þær tóku fyrst þátt í undankeppni HM í handknattleik kvenna í Þýskalandi fyrir 58 árum. Leiknir voru tveir leikir í Danmörku, 1965.


Svo skemmtilega vill til að nú eru einnig fjórar mæður í landsliðinu, sem eru að keppa um „Forsetabikarinn“ í HM í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Þegar Ísland varð Norðurlandameistari í Reykjavík 1964 var ákveðið að taka þátt í undankeppni HM 1965. Í Reykjavík voru sjö mömmur af 14 leikmönnum í meistaraliðinu, þannig að íslenska liðið var í öruggum höndum; Mömmurnar sáu um sína, eins og alltaf. Það er hægt að leita til þeirra eftir öryggi og styrk.

Mömmurnar fjórar sem tóku þátt í tveimur leikjum í undankeppni HM 1965, voru; Sigríður Sigurðardóttir, Val, fyrirliði, Sigríður Kjartansdóttir, Ármanni, Rut Guðmundsdóttir, Ármanni, markvörður og Ásta Jörgensdóttir, Ármanni.

Aðrar í fjórtán manna hópnum voru Jónína Jónsdóttir, FH, Margrét Hjálmarsdóttir, Þrótti, Sigurlín Björgvinsdóttir, FH, Sigrún Ingólfsdóttir, Breiðabliki, Sigrún Guðmundsdóttir, Val, Sylvía Hallsteinsdóttir, FH, Vigdís Pálsdóttir, Val, Elín Guðmundsdóttir, Víkingi, Edda Jónsdóttir, Fram og Jóna Þorláksdóttir, Ármanni.

Þjálfari var Pétur Bjarnason, Víkingi.

Mömmurnar fjórar, sem núna leika með landsliðinu eru Þórey Rósa Stefánsdóttir, Sunna Jónsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir.

Leiknir voru tveir leikir í október gegn Dönum í Kaupmannahöfn í undankeppninni 1965 og var keppt um sæti í HM í Þýskalandi, sem fóru fram í nóvember. Sigurvegarinn fór þá beint til Þýskalands.

Danir voru sterkari, unnu 16:9 í Lyngby og 15:6 í Rødovre.

Sigríður Sigurðardóttir skoraði fyrsta HM-mark Íslands, er hún jafnaði 1:1 og skoraði hún einnig annað mark Íslands, sem alls skoraði hún fjögur mörk í leiknum. Guðríður Guðjónsdóttir, dóttir Sigríðar, er í fararstjórn landsliðsins í Frederikshavn á Jótlandi í Danmörku. 

Kvennalandsliðið vann síðast bikar 1964 í Reykjavík. Það er kominn tími á að stúlkurnar endurtaki leikinn í Danmörku og komi heim með „Forsetabikarinn!“ Þær sýndu það gegn Grænlandi, að það er fátt sem getur stöðvað þær, ef hugarfarið er rétt og þær leika hratt, fast og skipulega, með hugarfarinu; „Hér erum við!“ og ýti leikmönnum Paraquay frá.  Ég segji enn og aftur; UPP MEÐ FJÖRIÐ! Bikarinn heim!

Mange tak. På gensyn!

Sigmundur Ó. Steinarsson

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -