- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Morten Stig Christensen er látinn: Maður sem allir hlustuðu á og tóku mark á

Morten Stig Christensen formaður danska handknattleikssambandsins var bráðkvaddur í morgun. Ljósmynd/Jan Christensen/Danska handknattleikssambandið
- Auglýsing -


Morten Stig Christensen formaður danska handknattleikssambandsins og fyrrverandi landsliðsmaður var bráðkvaddur í morgun 65 ára gamall. Danska handknattleikssambandið greindi frá þessari sorgarfregn um miðjan dag.

„Það er ótrúlegt að heyra þessa sorgarfregn. Aðeins er sólarhringur síðan ég kvaddi Morten hressan og kátan í lok vinnufundar okkar í Kaupmannahöfn,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í samtali við handbolta.is fyrir stundu. Guðmundur kvaðst vera sleginn yfir þessari óvæntu fregn.

Morten, Guðmundur og samstarfsmenn hittust til þess að fara yfir undirbúning á sameiginlegu mótahaldi Danmerkur, Noregs og Íslands á HM 2031. Guðmundur segir Morten hafa átt frumkvæðið að hafa Ísland með í umsókn landanna þriggja.

„Morten vildi allt fyrir okkur Íslendinga gera. Auk þess var hann mjög sterkur leiðtogi í alþjóðlegu starfi. Morten var stóra nafnið og maður sem hélt um alla þræði í samskiptum ríkjanna í norðurhluta Evrópu við stórþjóðirnar, Frakkland og Spán. Hann var óbeinn leiðtogi innan handboltans í Evrópu, mikill karakter og maður sem allir hlustuðu á og tóku mark á. Það verður mikill söknuður af Morten Stig Christensen,“ sagði Guðmundur sem vottar fjölskyldu Mortens og danska handknattleikssambandinu innilegrar samúðar.

Christensen var einn þekktasti handknattleiksmaður sinnar kynslóðar í Danmörku og er enn sá yngsti leikið hefur með A-landsliðinu, 17 ára. Hann lék alls 190 landsleiki fyrir Danmörku á árunum 1976 til 1988 og tók þátt í heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum.

Eftir að hafa starfað við sjónvarp, m.a. sem yfirmaður íþróttadeildar TV2 um árabil varð Christensen framkvæmdastjóri danska handknattleikssambandsins 2007 og sinnti því þangað til fyrir þremur árum að hann var kjörinn formaður sambandsins.

Christensen lætur eftir sig eiginkonu, fimm börn auk barnabarna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -