- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mosfellingar sigruðu í hörkuleik á Ísafirði

Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur hjá Aftureldingu í kvöld , skoraði 12 mörk. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -


Afturelding bar sigur úr býtum gegn liði Harðar, 36-29, er liðin mættust í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði í dag. Hart var barist allt frá upphafi leiks en fyrsta tveggja mínútna brottvísunin kom strax á fyrstu mínútu leiksins.

Nokkuð jafnt var á milli liðanna fyrstu tíu mínútur leiksins og voru markverðir beggja liða vel á verði. Rolands Lebedevs, markvörður Harðar, og Brynjar Vignir Sigurjónsson, markvörður Aftureldingar, höfðu báðir varið fimm skot eftir 10 mínútna leik. Afturelding leiddi 6-4 þegar 12 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik.

Kopyshynskyi sá rautt

Forskot Aftureldingar tók að aukast þegar leið á fyrri hálfleik. Hörður lenti í vandræðum með sóknarleikinn og Brynjar Vignir hélt uppteknum hætti í marki Aftureldingar. Eftir tuttugu mínútna leik voru Mosfellingar sex mörkum yfir, 12-6. Þegar langt var liðið á fyrri hálfleik var Ihor Kopyshynskyi, hornamanni Aftureldingar, vikið af velli með beint rautt spjald fyrir að brjóta á José Esteves Neto. Afturelding hélt 5-7 marka forskoti það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en staðan 12-17 fyrir gestina að honum loknum.

Lögðu ekki árar í bát

Í upphafi seinni hálfleiks fór Mikel Amilibia Aristi mikinn í sóknarleik Harðar og tókst heimamönnum að saxa niður forskot Mosfellinga. Fyrst niður í fjögur mörk þegar rúmar 20 mínútur voru eftir. Mosfellingar ýttu aðeins frá sér aftur og leiddu með fimm mörkum, 22-28, þegar tæpar 15 mínútur voru til leiksloka. Heimamenn gáfust þó ekki upp og skoruðu fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni því í 26-28 þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Í stöðunni 27-29 fyrir Aftureldingu átti Hörður tækifæri á því að minnka muninn í eitt mark en fékk dæmdan á sig ruðning.

Hitnaði í kolunum

Þegar sex mínútur voru eftir skoraði Árni Bragi Eyjólfsson eitt af ellefu mörkum sínum og kom Aftureldingu í 30-27. Mikill hiti var í leiknum síðustu mínúturnar og fékk Blær Hinriksson, leikmaður Aftureldingar, rautt spjald fyrir að hrinda Guilherme Andrade er Blær var á leið til baka í vörn Aftureldingar eftir mark Árna Braga. Mosfellingar skoruðu næstu tvö mörk í kjölfarið og voru fimm mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir, 27-32. Að lokum hrósuðu gestirnir sjö marka sigri, 36-29, í fjörugum leik í íþróttahúsinu Torfnesi.

Nóg að gera

Talsverð harka var í leiknum, sem má sjá á alls níu tveggja mínútna brottvísunum hjá liði Harðar. Victor Iturrino fékk rautt spjald á síðustu mínútu leiksins þegar hann fékk sína þriðju brottvísun. Afturelding fékk alls fimm tveggja mínútna brottvísanir og að auki fengu þeir, eins og áður segir, Ihor Kopyshynskyi og Blær Hinriksson beint rautt spjald.

Aristi og Neto markahæstir

Markahæstir hjá Harðarmönnum voru Mikel Amilibia Aristi og José Esteves Neto með sex mörk. Endijs Kusners skoraði fimm mörk, Suguru Hikawa fjögur og Victor Iturrino þrjú mörk. Jón Ómar Gíslason og Daníel Wale Adeleye skoruðu báðir tvö mörk. Guilherme Andrade skoraði eitt mark. Rolands Lebedevs varði 10 skot, þar af sjö í fyrri hálfleik.

Brynjar varði vel

Hjá Aftureldingu var Árni Bragi Eyjólfsson markahæstur með 11 mörk. Þar á eftir var Þorsteinn Leó Gunnarsson með 8 mörk. Einar Ingi Hrafsson skoraði fimm mörk af línunni. Ihor Kopyshynskyi var með 4 mörk, Gestur Ólafur Ingvarsson með 3 og þeir Blær Hinriksson og Birkir Benediktsson skoruðu báðir tvö mörk. Böðvar Páll Ásgeirsson skoraði 1 mark. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 17 skot í marki Aftureldingar, þar af 10 í fyrri hálfleik.

Staðan í Olísdeild karla: (uppfærð eftir alla leiki dagsins)

Valur7601225 – 18712
Fram7331203 – 1989
Afturelding7322198 – 1849
Selfoss7412215 – 2009
FH7322192 – 1978
ÍBV7322242 – 2068
Stjarnan6222169 – 1716
Haukar6213164 – 1635
Grótta6213168 – 1645
KA6213167 – 1745
ÍR7205192 – 2454
Hörður7007200 – 2460

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -