Fullt var út úr dyrum á veitingastaðnum Johann Frank í miðborg Zagreb eftir klukkan fjögur í dag þar sem Sérsveitin, stuðningssveit íslensku landsliðanna í handknattleik var með samkomu á meðal Íslendinga sem eru í borginni til að styðja íslenska landsliðið í átökunum gegn Egyptalandi í Zagreb Arena í kvöld.
Íslendingum hefur fjölgað mjög. Í gær komu a.m.k. 200 manns og annar eins fjöldi í dag með beinu flugi Icelandair. Von er á a.m.k. einni vél frá Icelandair á morgun. Ljóst er að stemningin á bara eftir að verða enn betri á leikjum íslenska landsliðsins eftir því sem á mótið líður.
Meðal þeirra sem komu með Icelandair í dag var Reynir Stefánsson varaformaður HSÍ með búningalager HSÍ í nokkrum töskum. Reynir hóf þegar sölu á búningunum á samkomunni ásamt eiginkonu sinni Þóru Waltersdóttur. Runnu búningarnir út eins og heitar lummur og nokkuð ljóst að Reynir fer heim með tómar töskur.
Hafliði Breiðfjörð var með myndavélina uppi við og myndaði stuðningsmenn sem voru að gíra sig upp fyrir viðureignina við Egypta sem hefst klukkan 19.30.
(Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri).