Hið árlega Partille Cup handknattleiksmót hófst í Gautaborg og Partille í Svíþjóð á mánudaginn og stendur fram á sunnudag. Keppendur skipta þúsundum og koma frá a.m.k. 50 þjóðum enda er mótið eitt það fjölmennasta handknattleiksmót sem haldið er ár hvert í Evrópu. Sögu mótsins má rekja aftur til 1970.
Að vanda eru Íslendingar duglegir að taka þátt í mótinu. Að þessu sinni taka 10 íslensk félög þátt í mótinu; FH, Fjölnir, Fylkir, Grótta, HK, ÍR, Selfoss, Stjarnan, Valur og Víkingur. HK er með flest lið, 11, og Grótta er með 10 lið skráð.
Eru keppendur frá Íslandi á aldrinum 13 til 16 ára samkvæmt upplýsingum á heimasíðu mótsins. Má reikna með að keppendur, þjálfarar og aðstandendur frá Íslandi skipti nokkrum hundruðum í Partille þessa dagana.
Einnig tekur U19 ára landslið Íslands þátt í Opna Evrópumótinu sem haldið er samhliða Partille Cup. Liðið leikur í undanúrslitum við lið Króata í kvöld.
Guðmundur Svansson ljósmyndari í Gautaborg sendi handbolta.is nokkrar myndir af íslenskum ungmennum á mótinu í ár.

















