Ísland hóf þátttöku í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik kvenna í gærkvöld með leik við Lúxemborg á Ásvöllum. Niðurstaðan var stórsigur 32:14. Frábær mæting var á leikinn og komu um 1.400 áhorfendur til að styðja við bakið á landsliðinu í síðasta heimaleiknum fyrir HM sem hefst í lok nóvember.
Næsti leikur íslenska liðsins verður í Þórshöfn í Færeyjum á sunnudaginn klukkan 14.
Þriðja og fjórða umferð riðlakeppninnar fer fram í lok febrúar og í byrjun mars og áður en endaspretturinn verður háður í fyrstu viku apríl. Sænska landsliðið er fjórða liðið í riðli Íslands.
Leikið er í átta riðlum. Tvö efstu lið hvers riðils komast áfram í lokakeppnina auk þriggja sem ná bestum árangri í þriðja sæti. EM 2024 fer fram í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi í desember á næsta ári og verður fyrsta lokamót EM í kvennaflokki með 24 þátttökuliðum.
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari var á Ásvöllum á leiknum í gærkvöld og myndaði fyrir handbolta.is. Eins og Hafliða er von og vísa þá náði hann mörgum mjög góðum myndum. Hluti myndanna voru í syrpu í gærkvöld en hér fyrir neðan er önnur syrpa með enn fleiri myndum. Smellið á myndirnar til að sjá þær í hærri upplausn.