Íslenska landsliðið æfði í fyrsta sinn í morgun í Ólympíuhöllinni í München eftir komu til borgarinnar í gær. Rúmur sólarhringur er þangað til flautað verður til upphafsleiks landsliðsins á mótinu sem verður við landslið Serbíu sem átti æfingatíma eftir íslenska landsliðinu í morgun. Eftir það tóku við æfingar hjá Svartfellingum og Ungverjum sem einnig eru í C-riðli með íslenska landsliðinu.
Æfa varð snemma vegna þess að síðdegis hefst keppni í F-riðli í Ólympíuhöllinni. Áður en að leikjunum kemur þarf að gera keppnissalinn tilbúinn. Portúgal og Grikkland mætast í upphafsleik F-riðils klukkan 17. Heimsmeistarar Danmerkur mæta Tékklandi klukkan 19.30.
Allir leikmenn íslenska landsliðsins tóku þátt í æfingunni í morgun að Viktori Gísla Hallgrímssyni undanskildum. Hann er veikur, eins og handbolti.is sagði frá í morgun.
Jón Birgir Guðmundsson sjúkraþjálfari sá um upphitun áður en hefðbundinn fótboltaleikur á milli eldri og yngri tók við. Í framhaldinu var snörp æfing undir stjórn Snorra Steins Guðjónsson landsliðsþjálfara þar sem farið var yfir ýmis áherslumál vegna viðureignarinnar við Serbíu sem hefst klukkan 17 á morgun.
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari var einn þeirra sem vaknaði snemma í morgun og var mættur í Ólympíuhöllina með myndavél sína þegar æfingin hófst.
Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri.
EM 2024 – leikjadagskrá riðlakeppni