„Þeir vita eftir fyrri leikinn að við hlaupum mikið. Ég reikna með að þeir leggi áherslu á að stöðva það. Eins reikna ég með að þeir verði enn fastari fyrir varnarlega og voru þeir nú nógu fastir fyrir á okkar heimavelli,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í myndskeiði sem handbolti.is fékk sent frá Baia Mare í Rúmeníu þar sem Valsmenn mæta Minaur Baia Mare á sunnudaginn í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla. Flautað verður til leiks klukkan 15. Valur vann fyrri viðureignina með átta marka mun á heimavelli, 36:28.
Ótrúlegt ævintýri
„Uppselt er á leikinn sem gerir verkefnið meira krefjandi og skemmtilegra fyrir okkur,“ segir Óskar Bjarni ennfremur á myndskeiðinu en hann segir þjálfarateymið og leikmenn búa sig undir eitt og annað í leik Baia Mare. M.a. að farið verði í sjö á sex.
Óskar Bjarni segir ennfremur að um stórviðburð sé að ræða fyrir Val, íslenskan handbolta og alla þá sem að þessu komi. „Þetta er stórt og skemmtilegt, ótrúlegt ævintýri.“
Uppselt á leikinn
Valsmenn komu til Baia Mare upp úr miðjum degi í dag 36 klukkustundum eftir að lagt var af stað frá Íslandi. Þeir fóru nánast rakleitt á æfingu í keppnishöllinni eftir að hafa komið farangri sínum fyrir.
Uppselt er á leikinn í Baia Mare, 2.300 aðgöngumiðar runnu út eins og volgar vöfflur með súkkulaðikremi. Reikna má með miklum hávaða og stemningu.