- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nachevski fékk tveggja ára bann

Mynd/EHF
- Auglýsing -

Þau tímamót verða á Evrópumóti karla í handknattleik í Þýskalandi í janúar næstkomandi að Norður Makedóníumaðurinn Dragan Nachevski verður fjarri góðu gamni. Nachevski, sem um langt árabil hefur verið yfirmaður dómaramála hjá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, hefur verið úrskurðaður í tveggja ára bann frá öllum störfum á vegum EHF. Hann getur átt yfir höfði sér lengra bann vegna annars máls sem ennþá stendur yfir rannsókn á.

Einnig var Nachevski sektaður um 5.000 evrur, jafnvirði um 720 þúsund króna.

Nachevski var úrskurðaður í bannið vegna þess að hann til­kynnti ekki EHF um að hafa verið beðinn um að taka þátt í hagræðingu úr­slit­a í samtali við mann, sem síðar kom í ljós að þóttist vera kínverskur kaupsýslumaður, en var í raun og veru útsendari dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2. Stöðin vann að þáttum um hagræðingu úrslita í alþjóðlegum handknattleik. Þættirnir voru sýndir í vor.

Nachevski hafnaði samstarfi við manninn en samkvæmt vinnureglum EHF bar Nachevski að tilkynna um fundinn og efni hans.

Leystur frá störfum í vor

Þegar TV2 sendi EHF upptöku af fundinum í vor var Nachevski leystur tímabundið frá störfum meðan rannsókn fór fram. Rannsókn er lokið og ákvörðun EHF um tveggja ára bann var tilkynnt í gær. Nachevski maldaði í móinn í vor en hafði ekki erindi sem erfiði.

Ekki er öll sagan sögð

Þar með er ekki öll sagan sögð af Nachevski. Ennþá stendur yfir rannsókn á ásökunum á hendur honum sem komu fram í fyrrgreindum þáttum TV2, m.a. frá ónafngreindum dómara. Dómarinn fyllyrti að Nachevski hafi beðið sig um að sjá til þess að “rétt” lið færi með sigur úr býtum í kappleik. Í staðinn lofaði Nachevski dómaranum að hann fengi fleiri og betri leiki í framtíðinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -