„Það er nær öruggt að vinstri hásinin sé slitin,” sagði Guðmundur Hólmar Helgason, handknattleiksmaður Selfoss, í samtali við handbolta.is fyrir stundu spurður um hvort hægt væri að slá föstu hvað kom fyrir hann í upphitun fyrir leik Selfoss og Stjörnunnar í Olísdeildinni í Hleðsluhöllinni í gærkvöld.
Guðmundur Hólmar sagði að bæði Örnólfur Valdimarsson, bæklunarlæknir, og Jón Birgir Guðmundsson, sjúkraþjálfari, hafi skoðað sig. Þeirra mat er að hásinin sé slitin. Báðir eru þeir vel sjóaðir í þessum efnum. Jón Birgir er sjúkraþjálfari Selfoss-liðsins og greip strax í taumana þegar Guðmundur Hólmar meiddist. Örnólfur var staddur á Selfossi og gat litið á Guðmund í gærkvöld.
Guðmundur Hólmar segist ekki hafa skýringu af hverju þetta hafi gerst í upphitun þegar hann var ekki undir miklu álagi. Reynsla margra sé sú að oft þurfi ekki mikið átak til að hásin slitni. Þær eigi það til að slitna fyrirvaralaust.
„Ég vonast til þess að komast í aðgerð hjá Örnólfi sem allra fyrst svo ég geti farið að vinna úr stöðunni. Ég ligg upp í sófa heima og bíð eftir að haft verði samband,” sagði Guðmundur Hólmar sem segir ljóst að hann leiki ekki handknattleik fyrr en á næsta keppnistímabili. Framundan sé sennilega hálfsárs vinna við endurhæfingu eftir aðgerð.