Piltarnir í U19 ára landsliði karla töpuðu fyrir Spánverjum í síðari leik sínum í dag á Opna Evrópumótinu í handknattleik í Gautaborg, 19:17. Í morgun vann íslenska liðið það egypska, 23:22, í fyrstu umferð mótsins. Spánverjar eru ævinlega með frábært lið í þessum aldursflokki og þess vegna ríkti nokkur eftirvænting í herbúðum íslenska liðsins fyrir leikinn hvernig liðið spjaraði sig.
Eftir jafnar upphafsmínútur var það spænska liðið sem tók frumkvæðið og var mest með 2-3 marka forystu. En með góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks náðu strákarnir okkar að jafna leikinn, staðan 9:9 eftir 30 mínútur.
Í upphafi síðari hálfleiks gekk allt á afturfótunum og hvert dauðafærið á fætur öðru fór í súginn á meðan Spánverjar byggðu upp ágætis forskot. Það var ekki fyrr en á lokamínútunum að íslenska liðið vann sig aftur inn í leikinn en eftir æsispennandi lokamínútur voru það Spánverjar sem höfðu tveggja marka sigur.
Í fyrramálið mætir íslenska landsliðið því pólska klukkan 8.30 að íslenskum tíma. Síðar um daginn verður leikið við eistneska landsliðið. Riðlakeppninni lýkur fyrri hluta fimmtudagsins með leik við landslið Litáen.
Bein útsending er frá leikjunum á ehftv.com
Mörk Íslands: Dagur Árni Heimisson 8, Garðar Ingi Sindrason 2, Andri Erlingsson 2, Ágúst Guðmundsson 1, Bessi Teitsson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1, Egill Jónsson 1, Haukur Guðmundsson 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 8, Jens Sigurðarson 1.
Önnur úrslit í dag:
Eistland – Spánn 14:24 – A-riðill.
Pólland – Litáen 23:18 – A-riðill.
Egyptaland – Ísland 22:23 – A-riðill.
Finnland – Króatía 7:23 – B-riðill.
Færeyjar – Holland 22:20 – B-riðill.
Pólland – Eistland 24:18 – A-riðill.
Færeyjar – Finnland 26:16 – B-riðill.
Litáen – Egyptaland 15:20 – A-riðill.
Svíþjóð – Króatía 17:18 – B-riðill.